Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:27:49 (304)

2003-10-08 14:27:49# 130. lþ. 7.1 fundur 52. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég ætla að vona að hæstv. landbrh. geri meira en að hafa þáltill. sér til handargagns heldur verði unnið með hana og við munum innan tíðar sjá myndarlega markmiðssetningu hvað varðar hlutfall af lífrænt vottuðum landbúnaðarvörum framleiddum hér á Íslandi til lengri tíma. Það hafa löndin í kringum okkur gert. Svíþjóð hefur sett sér það markmið að hafa 20% landbúnaðarlands vottað lífrænt árið 2005 en í dag er það 13,5%. Á Íslandi erum við með 0,3% ræktaðs landbúnaðarlands lífrænt vottað. Að vísu verður að taka til þess að við erum með mikið af afréttum og það skekkir svolítið töluna en við erum langt á eftir okkar nágrannaþjóðum.

Hvað varðar markaðssetningu í fyrsta lagi innan lands, þá vantar almenna kynningu til neytenda, almenna fræðslu um hver munurinn er á hefðbundnum búskap og lífrænt vottuðum búskap og hvernig búskaparhættir skila sér í vörugæðum. Þó svo að við búum í hreinu landi, sem við Íslendingar vitum vel, og við teljum og við vitum að við erum með góða vöru, þá vantar þessa þekkingu. Hvað þá þegar komið er á erlenda markaði þá vantar skilning á hreinleika íslenskra búvara og þá vantar stimpil lífrænnar vottunar. Það er svo grætilegt hve lítið vantar upp á hjá mörgum bændum að fara yfir í lífrænan búskap og fá til þess tilskildar vottanir og hafa þá möguleika á að fá hærra verð fyrir sína framleiðslu. En það vantar miklu meira. Það vantar fræðslu, ekki bara til almennings, það vantar líka fræðslu til bænda og þá sérstaklega inn í landbúnaðarháskólana.