Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:30:09 (305)

2003-10-08 14:30:09# 130. lþ. 7.1 fundur 52. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þingmenn halda alltaf að ráðherrar fylgist ekkert með og séu ekkert að gera. Þeir vita sjálfir hvað þeir eru að hugsa en þeir fylgjast kannski ekki alltaf með því sem gert hefur verið.

Þess vegna vil ég hér segja: Landbrn. hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að treysta lagalegt og stjórnsýslulegt umhverfi lífrænnar framleiðslu. Í janúar á sl. ári var gefin út reglugerð um lífræna framleiðslu sem í raun er yfirtaka á reglum Evrópusambandsins á þessu sviði með vissri aðlögun að séríslenskum aðstæðum. Sömu reglur gilda því um lífræna landbúnaðarframleiðslu hér á landi og í nágrannalöndum okkar í Evrópu.

Hér er sú sem hefur sett þessar reglur, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir.

Ég vil svo segja hér þetta: Það er auðvelt að standa hér upp og segja að menn eigi að fara í lífrænan búskap þegar það liggur fyrir að það hækkar verðið á vörunni og þegar það liggur fyrir, sem ég var lýsa hér áðan, að þó að menn hafi farið í þennan búskap hafa þeir orðið að falla inn í hið góða, almenna, íslenska kerfi því að varan hefur ekki selst. Neytandinn hefur ekki valið þessa vöru.

Ég styð samt þessa þróun og þessa hugsjón, hún hefur haft mikil áhrif eins og fyrirspyrjandi sagði hér í upphafi, ekki síst á meðferð dýra um allan heim, baráttuna gegn verksmiðjubúskap, baráttuna gegn því að fara illa með móður jörð, sem er mikið mál, þannig að bændurnir hafa í gegnum þessa alþjóðahugsun, bæði hér og víða um veröld, breytt búskaparháttum sínum. Það er fagnaðarefni. En Íslendingar eru í sérröð hvað búskap sinn varðar. Við erum perlan í veröldinni, að mínu mati, með frábærar vörur og hreint land og eigum mikla möguleika í gegnum það. Auðvitað er rétt sem hér kom fram, sauðfjárræktina vantar ekkert mikið upp á það að vera lífræn en það getur vel verið að hún ráði ekki við það, að við þurfum að nota hér tilbúinn áburð. En þetta er verkefni sem bændurnir og fræðimenn verða að fara í gegnum og ég þakka fyrir að þingið vill styðja þessa hugsun þannig að það er gæðabúskapur sem ber að stunda á Íslandi í fremstu röð.

Ég þakka, hæstv. forseti, þessa ágætu umræðu hér í dag.