Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:32:44 (306)

2003-10-08 14:32:44# 130. lþ. 7.2 fundur 53. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég legg hér spurningar fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. um ferðakostnað vegna tannréttinga.

Þær eru svohljóðandi:

1. Hefur tekist að ráða tannréttingasérfræðinga um allt land?

2. Ef ekki, mun ráðherra beina þeim tilmælum til tryggingaráðs að það endurskoði reglur um ferðakostnað vegna sérfræðiþjónustu tannréttingalækna?

3. Mun ráðherra tryggja að fjármagn fáist til að auka þátt Tryggingastofnunar í ferðakostnaði vegna tannréttinga barna og unglinga sem búa á svæðum þar sem enga tannréttingaþjónustu er að fá?

Hæstv. forseti. Sl. vor bárust ábendingar um það að tannréttingasérfræðingur sem hafði unnið í tólf ár austur á Egilsstöðum væri hættur störfum. Hann hafði þar sinnt góðu starfi en ekki hafði tekist þegar komið var fram á vor að ráða nýjan tannréttingasérfræðing í hans stað og ekki fékkst endurgreiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir ferðakostnað allra þeirra barna sem eftir það urðu að fara annaðhvort norður til Akureyrar eða hingað suður til Reykjavíkur til þess að fara í tannréttingar.

Nóg er þessi aðgerð dýr fyrir foreldra sem eiga börn sem þarf að rétta tennurnar í, þ.e. þessar almennu tannréttingar sem við flest þekkjum. Þá er ekki verið að tala um alvarlega sjúkdóma, klofinn góm eða endursmíði á tönnum og gómum vegna meðfæddra galla eða alvarlegra sjúkdóma, heldur er þetta tannskekkja af ýmsum toga. Þetta er meðferð sem stendur að meðaltali í eitt og hálft til tvö ár --- börnin eru látin koma á u.þ.b. sex vikna fresti til tannréttingasérfræðings til þess að fara yfir og herða á þessum spöngum öllum --- er þetta mikill aukakostnaður fyrir fjölskyldurnar sem bætist ofan á tannréttingarkostnaðinn.

Ef ég tek Austurland eitt og sér eru einhvers staðar á milli 80 og 90 börn og unglingar sem þurfa að fara í tannréttingar í dag. Þegar ég lagði fram þessa fsp. sl. vor og spurði hvort breyta þyrfti reglum Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðsluþátttöku í ferð til sérfræðinga svaraði hæstv. ráðherra því til að þess þyrfti ekki, tannréttingasérfræðingar væru sérfræðingar eins og aðrir sérfræðilæknar. Hann var mjög jákvæður fyrir því að skoða málið og hafði góð orð um að ef ekki tækist að ráða sérfræðinga úti um allt land vildi hann beita sér fyrir því að þessar reglur yrðu endurskoðaðar. Því spyr ég hæstv. ráðherra um þetta.