Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:39:05 (308)

2003-10-08 14:39:05# 130. lþ. 7.2 fundur 53. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að ráðherra ætlar að taka á því að breyta ferðakostnaðarreglum Tryggingastofnunar vegna tannréttinga. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi jafnan aðgang að þessari þjónustu og ef tannréttingaþjónusta er ekki veitt á einhverjum ákveðnum svæðum er fullkomlega eðlilegt að Tryggingastofnun komi til móts við ferðakostnað þeirra sem þurfa að sækja þessa heilbrigðisþjónustu.

Mig langar líka til að nefna hér annað. Það er verulegt áhyggjuefni hvað tannréttingakostnaður er mikill fyrir fjölskyldur, sérstaklega fjölskyldur þar sem mörg börn þurfa á tannréttingum að halda, og hefði ég gjarnan viljað beina því til ráðherra að hann skoðaði hvort eitthvað væri hægt að koma meira til móts við þessa hópa, a.m.k. að einhverju leyti, því að ekkert er greitt nema þetta séu alvarlegir fæðingargallar, eins og komið hefur fram.

Síðan eitt í lokin, herra forseti. Misræmi í gjaldskrá Tryggingastofnunar og tannlækna er eitt af því sem þarf verulega að taka á, tel ég, og vísa ég því til hæstv. ráðherra að skoða þann þátt í tannheilsuþjónustu.