Kynning á sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:03:44 (319)

2003-10-08 15:03:44# 130. lþ. 7.4 fundur 73. mál: #A kynning á sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og vonandi verður hún eitt lóð á vogarskálina í kynningu á réttindum sjúklinga. Þar er spurt:

,,Hvernig hafa lögin um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, og réttindi samkvæmt þeim verið kynnt annars vegar heilbrigðisstarfsfólki og hins vegar sjúklingum?``

Þessi lög voru samþykkt á vorþingi árið 2000 og öðluðust gildi 1. jan. 2001. Frá því að lögin voru samþykkt og þar til þau öðluðust gildi var samin reglugerð nr. 673 um vátryggingu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögunum um sjúklingatryggingu. Var reglugerðin birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. okt. 2000 en tók gildi á sama tíma og lögin. Ástæða þess að reglugerðin var birt löngu áður en hún tók gildi var að ráðuneytið taldi rétt að gefa heilbrigðisstarfsmönnum og almenningi færi á að kynna sér lögin og reglugerðina tímanlega áður en þau öðluðust gildi.

Heilbr.- og trmrn. stóð enn fremur fyrir kynningu á lögunum og reglugerðinni hjá fagfélögum heilbrigðisstarfsmanna og auglýsti gildistöku laganna í Morgunblaðinu, DV og Degi 22. des. árið 2000. Lögin og reglugerðirnar og nánari upplýsingar um þau voru enn fremur birtar á heimasíðu ráðuneytisins.

Samkvæmt ákvæðum 18. gr. laga um sjúklingatryggingu hvílir upplýsingaskylda á Tryggingastofnun ríkisins. Þar segir að Tryggingastofnun sé skylt að kynna fyrir almenningi ákvæði laga um sjúklingatryggingu og þar skuli koma fram að sé um að ræða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn skuli þeir beina kröfum til vátryggingarfélaganna. Heilbr.- og trn. Alþingis bætti ákvæði þessu við frv. þegar það var til meðferðar í þinginu vorið 2000. Lagði nefndin áherslu á að staðið yrði vel að kynningarmálum.

Heilbr.- og trmrn. hefur aflað sér upplýsinga um hvernig Tryggingastofnun ríkisins hefur staðið að kynningu á lögunum um sjúklingatryggingu í samræmi við 18. gr. laganna. Í svari stofnunarinnar kemur fram að stofnunin hefur sett upplýsingar á heimasíðu Tryggingastofnunar og í bækling stofnunarinnar um slysatryggingar. Enn fremur eru ítarlegar upplýsingar á tilkynningareyðublaði stofnunarinnar um trygginguna. Þá hafa starfsmenn Tryggingastofnunar skrifað greinar um sjúklingatrygginguna í Morgunblaðið, 31. jan. 2001, og septemberhefti Læknablaðsins 2003, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda.

Virðulegi forseti. Kynning á lögum um sjúklingatryggingu hefur farið fram í heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnun ríkisins. Eftir gildistöku laganna skal Tryggingastofnun ríkisins skv. 18. gr. laga um sjúklingatryggingu kynna lögin fyrir almenningi. Stofnunin hefur sinnt þessari upplýsingaskyldu eftir mætti. En ég tek undir þau orð heilbr.- og trn. að vel skuli standa að kynningu laganna um sjúklingatryggingu, en auðvitað má ætíð deila um það hversu umfangsmikil slík kynning eigi að vera, en full þörf er á því að kynna þau réttindi þannig að allir séu meðvitaðir um þau.