Kynning á sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:07:28 (320)

2003-10-08 15:07:28# 130. lþ. 7.4 fundur 73. mál: #A kynning á sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ja, það hefur nú aldeilis verið staðið vel að kynningu á þessum nýju lögum sem þingið var að bardúsa við að samþykkja hér um árið. Það hefur verið auglýst í B-tíðindum Stjórnartíðinda. (Gripið fram í.) Að vísu ekki þá.

Herra forseti. Ég er viss um að almenningur þessa lands er öllu upplýstari um það eftir að hafa lesið Stjórnartíðindin. Eða heldur hæstv. heilbrrh. að það sé virkilega þannig að nóg sé að auglýsa í Stjórnartíðindum um merkilegar réttarbætur eins og þessar? Ég velti því fyrir mér, af hverju bætti hæstv. ráðherra ekki um betur og auglýsti þetta líka á heimasíðu Framsfl.? Það kemur í ljós að þetta hefur verið auglýst á heimasíðu ráðuneytisins, einhvers staðar falið þar, ekki sá ég það þar en ég rengi ekki ráðherrann, og á heimasíðu Tryggingastofnunar og svo í Stjórnartíðindum. Hugsanlega hefur komið auglýsing í DV, blaði sem ég var einu sinni ritstjóri á, og í öðru blaði sem hæstv. heilbrrh. var líka ritstjóri á, en um hvað? Um gildistöku laganna, ekki um réttarbótina.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum að vel sé staðið að þessu máli?