Kynning á sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:08:50 (321)

2003-10-08 15:08:50# 130. lþ. 7.4 fundur 73. mál: #A kynning á sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Frú forseti. Ég verð að segja að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að fólk sem hefur orðið fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni eða læknamistökum sé mikið að grúska í Stjórnartíðindum eða fari inn á heimasíður, þó að kannski einhverjir geri það.

Ljóst er að þarna hefur ekki verið nógu vel að verki staðið og engin markviss kynning verið í gangi þessi rúmlega tvö ár, þó svo að menn hafi auglýst gildistöku laganna og gildistöku reglugerðar. Ég tel því löngu tímabært að fram fari markviss kynning og gefinn verði út bæklingur, sérstakur bæklingur.

Ég fór og kynnti mér þetta eftir að ég heyrði í heilbrigðisstarfsmönnunum hvernig að þessu væri staðið og þá var ekkert í gangi, það var síðla sumars. Þá var ekki neins staðar nein kynning í gangi á vefjum hvorki heilbrrn. né Tryggingastofnunar sem þeir höfðu greiðan aðgang að.

Ég hafði samband við landlækni vegna þessa því mér fannst þetta ekki boðlegt. Ég veit að hann hugðist hafa samband við þá sem áttu að standa að þessu, sem hefur líklega verið Tryggingastofnun. Síðan hefur þetta aðeins lagast eins og ég benti á. Það er fín grein í Læknablaðinu frá því í september og síðan er þetta komið á fremstu síðu hjá Tryggingastofnun þar sem hægt er að kalla fram þessi réttindi.

En engu að síður verður að standa betur að þessu. Það er ekki hægt að búast við því að fólk sæki sér rétt sem það á ef það veit ekki um hann. Það er lágmark að hann sé kynntur og eins og við lögðum til í heilbr.- og trn. þegar frv. var til meðferðar þar, að vel skyldi staðið að kynningu. Það hefur ekki verið gert og ég benti hérna á lögin um réttindi sjúklinga þar sem mjög vel var að verki staðið. Ég legg til að hæstv. ráðherra taki þá kynningu sér til fyrirmyndar og setji af stað vinnu við að útbúa bækling og aðra kynningu sem er greið fyrir heilbrigðisstarfsmenn, almenning og þá sjúklinga sem þurfa á þeim upplýsingum að halda.