Umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:21:20 (327)

2003-10-08 15:21:20# 130. lþ. 7.5 fundur 60. mál: #A umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Já, það má þakka hæstv. ráðherra svörin, en auðvitað hefði maður viljað sjá meiri vilja, meiri ákafa hjá hæstv. ráðherra fyrir því að málið gengi vel og hratt fyrir sig. Það er nú svo að það er stefna ríkisstjórnarinnar að koma á sjálfbærum samgöngum í landinu. Má lesa um það í samgönguáætlun sem hæstv. samgrh. talaði fyrir hér á síðasta þingi og þar fagnaði ég því vissulega að samgöngutæki sem ekki eru vélknúin ættu nú að fá ákveðna athygli í samgöngumálum þjóðarinnar. Hér erum við nú komin að fyrsta alvörumálinu sem varðar hjólreiðamenn og umferð hjólandi vegfarenda eftir að samgönguáætlunin var samþykkt og ég hefði satt að segja óskað eftir því að betur væri haldið á málinu.

Það er auðvitað rétt að Vatnsleysustrandarvegurinn er stórhættulegur fyrir hjólreiðafólk eins og hann er í dag. Hann er fullur af blindhæðum og hættulegum beygjum. Hann er með einbreiðu malbiki og hann er ólýstur. Þannig að það eru gífurlegar hættur samfara því að hjóla á veginum eins og hann er núna. Þar að auki lengir hann vegalengdina milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar sennilega um eina 3--4 km. Og það þarf nú aðeins að skoða það. Ef það er markmið okkar að gera reiðhjól að samgöngutækjum í þéttbýlinu, þá þurfum við að fara að horfast í augu við það að stundum verðum við að leggja peninga í að búa til hjólreiðabrautir, sjálfstæðar hjólreiðabrautir meðfram stofnbrautum. Og það hefði getað átt við í tilfelli Reykjanesbrautar. Ég er ekki að segja að hitt geti svo sem ekki gengið ágætlega upp ef það er tryggt að frágangur á þeim brautum sem ætlaðar eru hjólreiðafólki sé þannig að þær séu öruggar, þær séu vel merktar og við getum verið stolt af því, eins og ég sagði áðan, að bjóða ferðalöngum, hjólandi ferðalöngum frá útlöndum á þær brautir.