Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:35:33 (333)

2003-10-08 15:35:33# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er ljóst að núverandi hæstv. samgrh. hefur heldur betur staðið með ferðaþjónustunni í landinu, m.a. hefur hæstv. ráðherra haft frumkvæði að því að auka mjög framlög til greinarinnar til þess að standa í markaðsfærslu ferðaþjónustunnar með þeim árangri sem hæstv. ráðherra rakti hér áðan.

Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni í síðustu viku, áhrifin af þessum hvalveiðum á ferðaþjónustuna virðast vera minni en margir bjuggust við. Ég satt að segja sem hef verið ákafur talsmaður hvalveiða bjóst alltaf við talsvert miklum mótmælum þegar við hæfum þessar veiðar. En á daginn hefur komið að þau hafa ekki orðið í þeim mæli sem ég og mjög margir aðrir ætluðum að yrði.

Ég tek sem dæmi af breska sjávarútvegsráðherranum sem var með kjaftinn uppi fyrir nokkrum mánuðum. Í dag er greint frá því að hann sé í staðarblaði sínu í Bretlandi að draga í land með þetta allt saman og viðurkenni ekki lengur að hafa verið með þessar hótanir sem voru hafðar eftir honum í íslenskum fjölmiðlum og höfðu birst í breskum virtum fjölmiðlum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það þurfi auðvitað að taka þessi mál alvarlega. Það hefur verið fylgst mjög nákvæmlega með áhrifunum af hvalveiðunum á ferðaþjónustuna af hálfu Ferðamálaráðs. Við höfum staðið þá vakt mjög rækilega og það hefur komið á daginn sem ég er hér að rekja að áhrifin eru ekki eins almenn og menn bjuggust við.