Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:39:41 (336)

2003-10-08 15:39:41# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Frú forseti. Þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en verð að segja það hér: Við vitum ekkert hver áhrif vísindaveiðanna verða á ferðaþjónustuna. Ég verð að segja að það er ámælisvert að hæstv. ferðamálaráðherra hafi ekki látið gera neina könnun á því og engar rannsóknir og virðist ekki ætla að gera neinar rannsóknir á því. Það er mjög alvarlegt. Og það segir hann hér þrátt fyrir að bæði þingmenn og ráðherrar hafi ítrekað lofað þeim sem eru í hvalaskoðunarrekstri að þeir mundu ekki hefja veiðar fyrr en búið yrði að rannsaka áhrifin af hvalveiðum.

Mig langar að benda á það vegna þess að verið var að vísa á Noreg að Norðmenn veiða ekki sömu tegundir og þeir sýna. (Gripið fram í.) Það hefur komið fram ... (Gripið fram í.) Þeir gera það ekki á sama stað eins og verið er að gera hér, það er ekki þannig. Við þurfum að skoða þetta frá mörgum hliðum. Og það verður auðvitað að fara í allsherjarúttekt á áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustuna og reyndar á aðrar útflutningsgreinar þótt það heyri ekki undir hæstv. samgrh., heldur undir aðra ráðherra. Síðan verða menn auðvitað að meta það hvaða hagsmunum er verið að fórna áður en farið verður út í frekari hvalveiðar. Við verðum að vita hvað við erum að græða og hverju við erum að tapa í þessu.

Kynningarátak er mjög mikilvægt. Færeyingar hafa t.d. gert verulegt átak við að kynna veiðar sínar á grindhval vegna áhyggna sinna af hvalveiðum. Við vitum að veiðar á 200 hrefnum hafa kannski ekki verulega mikil áhrif í lífríkinu en þær geta haft veruleg áhrif á ferðaþjónustuna.

Og ég verð að segja að það er mjög athyglisvert að fara inn á vef sem heitir gestsauga.is þar sem verið er að fara yfir þessi mál og hvernig erlendir fjölmiðlar fjalla um íslenskar hvalveiðar og ferðaþjónustuna. Ég bendi fólki á að kynna sér það því þarna er auðvitað ábatasöm þjónusta, hvalaskoðunin, sem við höfum í hendi og við þurfum að skoða hvaða áhrif þessar veiðar hafa á hana.