Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:42:07 (337)

2003-10-08 15:42:07# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil minna hv. þingmenn á það að hvalveiðar, vísindaveiðar á hrefnunni, hófust í kjölfar þess að Alþingi ályktaði um hvalveiðar. (Gripið fram í: 1999.) Auðvitað þarf að gera sér grein fyrir því. Í kjölfar ályktunarinnar tekur síðan sjútvrh. þessa ákvörðun. Auðvitað hef ég sem ferðamálaráðherra áhyggjur af því sem getur haft neikvæð áhrif á eflingu ferðaþjónustunnar. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að mínu mati, og ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni, hvernig að þessum vísindaveiðum er staðið. Það þarf að hafa gott samráð við þá sem stunda hvalaskoðun. Á það hef ég lagt áherslu.

Vegna þess sem hv. þm. Mörður Árnason sagði, hann spurðist fyrir um það hvort ég hefði flutt kvartanir hvalaskoðunarmanna, er ég í býsna góðu sambandi við hvalaskoðunarmenn og geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki skynsamlegt að beina hvalveiðimönnum inn á þau svæði, að sjálfsögðu ekki, þar sem síðan er verið að sýna ferðamönnum þessa hvali.

En ég held að aðalatriðið sé að hv. þingmenn átti sig á því að kannanir á þessu, eftir að búið var að taka ákvörðun um að hefja veiðar, eru ekki marktækar nema yfir langan tíma sé litið. Þó að við reynum að átta okkur á því í dag hvort hvalveiðarnar hafi einhver áhrif á ferðaþjónustuna er ekki hægt að merkja nein áhrif enn. Þess vegna er það algerlega fráleitt sem hv. þm. Mörður Árnason hélt fram hér, að ég hefði haldið því fram að hvalveiðarnar, vísindaveiðarnar, hefðu haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustu. Ráðherrann sagði það aldrei nokkru sinni og mér hefði ekki dottið í hug að halda því fram.