Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:48:25 (339)

2003-10-08 15:48:25# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. alþm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fyrir mig þrjár spurningar um atvinnuleysisbætur. Út af fyrir sig má segja að svarið við fyrri tveimur spurningunum sé að finna í fjárlagafrv. vegna næsta árs en þar er fjallað um hvort raunhækkun atvinnuleysisbóta sé fyrirhuguð.

Atvinnuleysisbætur hækkuðu síðast í upphafi árs úr kr. 73.765 í kr. 77.449, eða um 5%. Skemmst er frá því að segja að fjárlagafrv. gerir einungis ráð fyrir hækkun bótanna á næsta ári örlítið umfram spár um verðlagsþróun. Ekki er hins vegar gert sérstaklega ráð fyrir hækkun það sem eftir lifir af þessu ári.

Hins vegar hef ég reifað þær hugmyndir við forustumenn á vinnumarkaði að rétt sé að taka atvinnuleysistryggingakerfið í heild sinni til umfjöllunar og endurskoðunar. Ég á von á því að setja slíka vinnu formlega af stað á næstu vikum og bind vonir við að henni megi ljúka á fáeinum mánuðum. Nú þegar er hafinn nokkur undirbúningur að þessu starfi í félmrn. sem mun fara fram í samstarfi við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og samtök aðila vinnumarkaðarins.

Önnur spurningin er um afstöðu ráðherra til þess að tekin verði upp á nýjan leik föst viðmiðun eða tenging atvinnuleysisbóta við umsamin laun.

Árið 1995 var horfið frá því að tengja upphæð atvinnuleysisbóta við lægstu launataxta. Slík tenging hafði tíðkast í almannatryggingakerfinu og var gagnrýnd. Gagnrýnin beindist einkum að því að tengingin þótti vera hemill á hækkun lægstu launataxta í landinu sem voru orðnir allt of lágir og fáir fengu greidd laun samkvæmt þeim. Þetta hafði neikvæð áhrif á upphæðir ýmissa bótaflokka og virkaði þannig í raun neikvætt á báða bóga. Þar af leiðandi ríkti um það nokkuð almenn samstaða að rjúfa þessa tengingu.

Því miður hefur reynslan orðið sú að miðað við þróun launavísitölu hafa atvinnuleysisbætur lækkað. Sú lækkun er reyndar ekki jafnmikil ef litið er til kaupmáttar atvinnuleysisbóta miðað við neysluvísitölu. Ég tel því ekki einboðið að slík tenging sé af hinu góða en vísa til fyrrgreindrar endurskoðunarvinnu um framhald málsins.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hvort til greina komi að endurskoða útreikning atvinnuleysisbóta þannig að fyrstu mánuðirnir taki að einhverju leyti mið af þeim launum sem viðkomandi hafði áður en til atvinnumissis kom, eða að reynt sé að taka mið af félagslegum aðstæðum eða skuldbindingum þess sem atvinnuna missir.

Ég vil á þessu stigi máls ekki útiloka það. Eins og fram kom í máli hv. þm., fyrirspyrjanda, hafa ýmsir aðilar ályktað í þessu veru. Má þar nefna Alþýðusamband Íslands og flokksþing framsóknarmanna. Vegna þess sem ég hef áður rakið hér, að endurskoðunarvinna sé nú fram undan, vil ég, um leið og ég útiloka það ekki, ekki úttala mig heldur um þær hugmyndir og tel rétt að beina umræðunni í þennan farveg.

Hv. þm. spurði hvort það væri virkilega meiningin, eins og fram kemur í fjárlagafrv., að breyta kerfi atvinnuleysistrygginga á þann veg að þar verði biðtími í þrjá daga eftir atvinnuleysisbótum. Það stendur til já, og með því er verið að færa kerfið, að hluta til, og samræma það kerfi sem gildir á Norðurlöndunum, öðrum en Danmörku, eins og fyrirspyrjanda er eflaust kunnugt um. Í Noregi og Svíþjóð er þessi biðtími fimm dagar en í Finnlandi er hann sjö.