Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:53:11 (341)

2003-10-08 15:53:11# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að segja það, í hinu háa Alþingi, að nú er mér sem nýjum þingmanni alveg hætt að bregða við það sem kemur frá stjórnarflokkunum. Það er allt svikið, svei mér þá, jarðgöng, línuívilnun. Í gær var til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um hækkun á vörugjaldi og eldsneyti, þungaskatti, sem mun verða gríðarlegt högg fyrir landsbyggðina, milljarður í skattahækkanir þar. Síðan eru boðaðar 20 milljarða kr. skattalækkanir árið 2007. Er ekkert að marka þetta fólk?

Hvernig stendur á því að hv. stjórnarþingmenn flýja alltaf þingsalinn þegar koma upp erfið mál, í þeirra augum? Núna er hér einn þingmaður Framsfl. í salnum og síðan hæstv. félmrh. Það er allt og sumt. Jú, þarna birtist einhver einn enn. Í gærkvöldi þegar við vorum að ræða um þungaskattinn var ekki einn einasti þm. Framsfl., ekki einn einasti, frú forseti. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Er það svona sem Alþingi starfar? spyr ég, nýgræðingurinn. Ég verð að lýsa því yfir að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hið háa Alþingi að verða vitni bæði að þessum vinnubrögðum stjórnarflokkanna, hvernig þeir svíkja öll sín loforð og síðan hvernig þeir sýna hinu háa Alþingi lítilsvirðingu með því að láta ekki einu sinni sjá sig í salnum.