Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 16:06:38 (350)

2003-10-08 16:06:38# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur eiginlega lent út um víðan völl, alla vega svona í endann. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan og mér finnst að fyrirspyrjandi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafi kosið að líta fram hjá. Fyrir dyrum stendur að taka kerfi atvinnuleysistrygginga okkar til gagngerrar endurskoðunar. Það verður gert í samvinnu við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og aðila vinnumarkaðarins. Þar kemur m.a. til álita, eins og ég sagði áðan, að hækka bæturnar, að taka tillit til launa viðkomandi einstaklings sem verður atvinnulaus (Gripið fram í: Byrjarðu á að lækka?) og fleira.

Vegna þess að mér finnst líka gæta mikils (Gripið fram í.) misskilnings í því að þingmenn halda því fram, hugsanlega vísvitandi, að fólk eigi að lenda í skerðingu aftur og aftur þá er hér um að ræða þriggja daga skerðingu í eitt skipti á fimm árum, í þrjá daga af þeim 1.865 sem Íslendingar eiga rétt á að vera á atvinnuleysisbótum. Það eru um það bil 10 þús. kr. af 4,7 millj.

Vissulega er enginn ofsæll af þeim atvinnuleysisbótum sem við bjóðum fólki upp á. Það er þess vegna sem við ætlum að taka kerfið til endurskoðunar.