Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:35:47 (353)

2003-10-09 10:35:47# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Fylgt verði eftir heimild Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands og þess gætt að sala fyrirtækisins fari fram þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar og þannig tryggt að ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eign sína.``

Þessi yfirlýsing var gefin út í vor að afloknum kosningum. Það lá alveg fyrir í aðdraganda þeirra hver stefna ríkisstjórnarflokkanna var í þessu máli. Það hefur verið stefna þeirra og stefna ríkisstjórnarinnar að selja Landssímann. Það kemur skýrt fram í þeim plöggum sem fylgja fjárlagafrv. að þeirri stefnu verður fylgt fast eftir þó að ekki sé gert ráð fyrir tekjum af þeirri eignasölu á þessu stigi málsins. Þess vegna þarf engum manni að koma á óvart að undirbúningur hefjist að því að selja Landssímann. Það verður auðvitað staðið að því með fullkomlega eðlilegum hætti á vegum ríkisstjórnarinnar með ráðherranefnd um einkavæðingu í broddi fylkingar og síðan einkavæðingarnefndina, sem er starfsnefnd þeirrar ráðherranefndar. Allt þetta hefur legið fyrir um langa hríð.

Það er auðvitað ómögulegt að fullyrða um hver verður kaupandi Símans. Ég hef enga hugmynd um það. Það verður væntanlega gengið í að auglýsa fyrirtækið til sölu með eðlilegum hætti. Þá gefa þeir sig fram sem hafa áhuga á að kaupa það.

Hvað varðar fyrsta atriðið sem þingmaðurinn nefndi, þ.e. spurninguna um hvar forræðið yfir hlutabréfum ríkissjóðs eigi að vera, þá hefur það verið rætt um langa hríð að það sé óeðlilegt að eftirlitsaðilinn sé jafnframt handhafi hlutabréfsins. Í þessu tilfelli er samgrn. með hvort tveggja. Það er í samræmi við grundvallarverkaskiptingu í lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands að eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum sé á forræði fjmrn. eins og aðrar eignir nema sérstaklega sé um annað samið eða ákveðið í lögum. En þetta er í samræmi við þær meginreglur sem hér gilda.