Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:40:29 (355)

2003-10-09 10:40:29# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru merkilegar vendingar í þessu máli. Nú er Samfylkingin komin með gömlu stefnu Framsfl. en það var lengi vel stefna Framsfl. að það ætti að selja Símann en skilja grunnnetið eftir. Núna er Samfylkingin sem sagt komin með þessa stefnu en Framsókn hins vegar hlaupin fyrir björg og hefur lagst flöt í málinu fyrir frjálshyggjuliðinu í Sjálfstfl. Nú bendir allt til þess að enn eitt stórslysið sé í uppsiglingu í þessu hörmulega einkavæðingarferli. Það er augljóst mál hvað er að gerast varðandi forræði málsins. Nú á að rífa það af samgrh. enda tókst það ekki sérstaklega vel síðast þegar samgrh. hafði forustuna í málinu eins og kunnugt er.

Eins og venjulega eru vinnubrögðin bara búin til jafnóðum. Reglurnar og aðferðirnar eru bara svona, fitjað upp á þeim utan um skrokkinn og í viðtali við formann einkavæðingarnefndar í gær eða dag, sem er auðvitað alveg kostulegt, segir hann eitthvað á þá leið að nefndin sé að byrja að funda. Það fyrsta sem hún ætli að gera sé að leita að ráðgjafa. Síðan á nefndin eftir að ákveða að hve miklu leyti þetta verður kannski að einhverju leyti selt í dreifðri eign og að hve miklu leyti nefndin leitar að kjölfestufjárfesti. Það er nýyrðið fína. Er það Samson sem er í vændum þar? Er það Og Vodafone kannski? Er bara ekki einfaldast að gera þetta strax, að búa til eina ríkisvædda einokun? Það er auðvitað það sem er í uppsiglingu. Enn eitt sviðið í almannaþjónustu á Íslandi á að leggja undir fákeppnis- eða einokunarmarkað með því að einkavæða Landssímann. Það blasir við hverjum manni að það verður afleiðingin.

Svona eru vinnubrögðin öll hjá einkavæðingarnefnd þar sem formaðurinn fauk fyrir borð og varð að notast við ráðuneytisstjórann í forsrn. í staðinn. Það hefur verið svo mikið mannfall í nefndinni. Menn hafa sagt af sér hver á fætur öðrum vegna óánægju með vinnubrögðin þannig að nú er þetta bara komið inn í ríkisstjórnina sjálfa. Ráðuneytisstjórinn í forsrn. vélar um þetta. Vinnubrögðin eru auðvitað öll þannig að það þarf opinbera rannsókn á því hvernig þar hefur verið farið með eignir þjóðarinnar og allt í því sambandi.