Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:42:48 (356)

2003-10-09 10:42:48# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við heyrðum sömu rulluna frá hæstv. fjmrh. og við höfum heyrt áður í tengslum við sölu á ríkiseignum. Hann sagði að hagsmuna þjóðarinnar yrði gætt í hvívetna, eða á þá lund var inntakið í svari hans.

Einmitt vegna þess hvernig til hefur tekist held ég að almenningur á Íslandi hafi áhyggjur af þessu máli. Ég vil einnig benda á það, þar sem einkavæðingarnefnd og Landssímann ber hér á góma, að þingflokkur Vinstri grænna hefur óskað eftir því að Ríkisendurskoðun geri athugun á vinnubrögðum, verklagi og stjórnskipulegri stöðu einkavæðingarnefndar. Sérstaklega verði könnuð samskipti nefndarinnar við Landssíma Íslands.

Eftir þessu var óskað formlega í janúarlok árið 2002. Við ítrekuðum þessa ósk og þetta erindi haustið 2002. Enn hefur engin skýrsla borist. Þetta er ekki fyrirspurn en ég vek athygli stjórnar þingsins á því að við höfum ekki fengið þessa skýrslu í hendur.