Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:44:20 (357)

2003-10-09 10:44:20# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að það er samgrh. sem ber ábyrgð á þjónustu Landssímans og því að hann sé jafntryggur og hann efldur til að sinna fjarskiptaþjónustu um allt land.

Lítum til reynslunnar erlendis af markaðsvæðingu á raforkukerfinu á síðustu mánuðum. Í Kaliforníu hrundi hið einkavædda markaðskerfi raforkukerfisins og ríkið varð að leysa það til sín. Við höfum undanfarið heyrt fréttir af árangri af markaðsvæðingu raforkukerfisins í Skandinavíu þar sem heilu löndin og landshlutirnir urðu rafmagnslausir. Svipaðar fréttir berast frá Ítalíu og Frakklandi og orsökin er markaðsvæðing þessara fyrirtækja, þessarar þjónustu. Þegar arðsemiskrafan er sett í forgang þá hirða menn ekki lengur um viðhaldið, reksturinn eða þjónustuna.

Ég tel að ríkisstjórninni væri nær að taka markmið sín um sölu Landssímans til endurskoðunar í ljósi einkavæðingar og markaðsvæðingar slíkrar þjónustustarfsemi erlendis. Við upplifum það nú að tilkynnt er í fjölmiðlum að sala Landssímans hafi verið flutt frá samgrh. til fjmrh. Einhverra hluta vegna er samgrh. ekki lengur treyst til að fara með málið. Það sýnir nú best sambúðina innan ríkisstjórnarinnar.

Ég spyr: Hvar er Framsfl.? Ég skil alveg Sjálfstfl. sem allt vill selja og markaðsvæða. Honum finnst allt vera falt fyrir peninga. En er Framsfl. virkilega sama sinnis? Er hann það í raun? Eru það skilaboðin til þjóðarinnar að Framsfl. sé búinn að leggja alla félagshyggju og alla samhjálp til hliðar og sé reiðubúinn að skríða í markaðsvæðingarsæng íhaldsins og selja Landssímann hæstbjóðanda?