Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:46:45 (358)

2003-10-09 10:46:45# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég veit að Framsfl. er ákaflega hugleikinn hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og formanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Og ég veit að stundum sér hann ekkert annað en Framsfl. Hins vegar skil ég ekki hvað hv. formanni gengur til að koma hingað og drepa á dreif fullkomlega eðlilegri og góðri umræðu eins og hv. formaður þingflokks VG gerði. Hugsanlega endurspeglar þetta einhverja spennu og valdaátök innan VG, ég veit það ekki. En að fara að ráðast á Samfylkinguna fyrir það sem hæstv. fjmrh. gerir, það skil ég ekki.

Herra forseti. Ég minnist þess að formaður VG hefur talað um að hann ætli að halda uppi harðri stjórnarandstöðu. Við sjáum hvernig hún er. Stjórnarandstaðan felst aðallega í því að berja á Samfylkingunni.

Herra forseti. Hv. þm. kemur hér upp og gerir því skóna að Samfylkingin sé að búa til einhverja stefnu núna og taka upp stefnu eftir Framsfl. Nú er það að vísu þannig að Framsfl. er ekki alvondur. Það var nú sama höndin sem skrifaði stefnuskrá hins upphaflega jafnaðarmannaflokks og Framsfl., þannig að sitthvað má kannski af þeim flokki læra.

Hins vegar er alveg ljóst að stefna Samfylkingarinnar er búin að vera svona um þriggja ára skeið og hún er nákvæmlega svona. Við teljum að heppilegt sé að selja samkeppnisrekstur Símans. Við teljum að það geti verið gott fyrir hlutabréfamarkaðinn og ef hann er seldur á réttum tíma, þá er það gott fyrir ríkið. En umfram allt er hugsanlegt að það geti spýtt nýjum vítamínum og blóði inn í þennan hugbúnaðariðnað sem hefur verið að kikna undan ofríki risans.

Við höfum hins vegar sagt: Það á ekki að selja dreifikerfið, a.m.k. ekki að svo komnu máli, vegna þess að við erum að hugsa um landsbyggðina og fyrirtækin á landsbyggðinni. Við lítum á dreifikerfið eins og þjóðvegakerfið. En það getur vel verið að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé svo upptekinn af Framsfl. og illsku hans að hann sjái það ekki að það sem Samfylkingin er að gera þarna er að verja annars vegar markaðinn og hins vegar landsbyggðina.

Og svo má nú ekki gleyma því að hv. þm. er ekki alveg hreinn þegar kemur að einkavæðingu. Var það ekki í samgönguráðherratíð hans sem menn byrjuðu á því að selja ríkisfyrirtæki?