Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:59:39 (363)

2003-10-09 10:59:39# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Frá því er skemmst að segja að afstaða Samf. til þessa frv. er neikvæð. Við erum á móti þessu frv. og munum greiða atkvæði gegn því.

Nú er það svo að viðbótarlífeyrissparnaðurinn, sem hæstv. fjmrh. hafði forgöngu um, er eitt af því sem best hefur tekist hjá hæstv. ráðherra. Við vitum að hluti arfleifðar verðbólguáranna hér á landi var að sparnaðarhæfi landsmanna var nánast svipt burt. Það hefur gengið ákaflega illa að fá Íslendinga til þess að spara. Nú um stundir er afar þarft að efla þjóðhagslegan sparnað. Það sem best hefur tekist er einmitt að ýta undir þennan viðbótarlífeyrissparnað hjá fólki á vinnumarkaði. Hæstv. fjmrh. upplýsti áðan að það hefði tekist ákaflega vel.

Herra forseti. Mikið vildi ég að hæstv. fjmrh. hlustaði á mig og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og hann héldu einkafund sinn seinna.

(Forseti (HBl): Ég tek undir óskir hv. þm.)

Herra forseti. Það er alltaf gaman að hlusta á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson en þó miklu skemmtilegra þegar hann er í ræðustól. Ég var að lýsa því áðan, herra forseti, til upprifjunar fyrir hæstv. fjmrh., að Samf. er á móti þessu frv. Við teljum að það sé síst tímabært að leggja til afnám þessa hvata til sparnaðar sem ríkið hefur komið á gagnvart launamönnum.

Nú er það þannig að hvatinn til að taka þátt í lífeyrissparnaðinum er í reynd þrefaldur. Í fyrsta lagi er það skattfrestunin sem nemur greiðslu af iðgjöldunum. Í öðru lagi er það 2% mótframlag launagreiðandans sem felur í sér að ef starfsmaður tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði upp á 2% af tekjum sínum þá greiðir launagreiðandinn 2% til viðbótar. Ríkið hefur síðan komið inn í þetta með þeim hætti að fyrir hvert prósent sem launagreiðandinn sparar slær ríkið 0,1% af tryggingagjaldi sem færist í raun yfir á lífeyrissparnaðarreikning launamannsins.

Rökin sem hæstv. fjmrh. flytur fyrir þessu eru reyndar alls ekki út í loftið. Hæstv. ráðherra vísar til þess að vel hafi tekist til með þetta og það er rétt hjá honum. Hann greindi frá því, sem ég vissi ekki áður, að meira en helmingur opinberra starfsmanna hefur tekið þátt í þessu og um helmingur starfsmanna á almennum launamarkaði. Það sýnir að það er eftirspurn eftir þessu. Við aðrar aðstæður í samfélaginu, aðrar aðstæður í efnahagslífinu, væri þetta sennilega rétt ákvörðun hjá hæstv. fjmrh. Nú búum við hins vegar við sérstakar aðstæður.

Ég er að vísu þeirrar skoðunar og ósammála Seðlabankanum að því leyti, að á næstu árum verði hagvöxtur töluvert meiri en Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir. Ég tel að þenslan verði minni. Ég held að það sé hægt með samstilltu átaki okkar í stjórn og stjórnarandstöðu annars vegar og hins vegar afla á vinnumarkaði, að feta það einstigi sem feta þarf með agaðri hagstjórn til að hamla því að of mikil þensla verði í hagkerfinu, og það færi úr böndum þannig að verðbólgan losnaði úr þeim fjötrum sem hún er í núna og hugsanlega kæmist órói á gengið. Til þess að draga úr mögulegri þenslu þarf aukinn sparnað.

Mér segir svo hugur þegar ég skoða þau gögn sem liggja fyrir, frá hæstv. fjmrh. sem hann hefur sýnt okkur í þjóðhagsáætlun og fjárlagafrv., frá greiningardeildum bankanna og því sem Seðlabankinn hefur látið frá sér fara, að þó hér verði allt í þokkalegu standi varðandi þensluna sé óljóst hvernig verður þegar við komum fram undir lok árs 2005 og 2006. Þá verður hugsanlega mikil þensla í samfélaginu. Við eigum eftir að sjá hvernig þær stærðir þróast.

Það er fyrst og fremst tvennt sem ég hugsa um í því sambandi. Við vitum ekki hver niðurstaðan verður varðandi hækkun húsnæðislána, bæði lánshlutfalls, sem ég hef minni áhyggjur af fyrir hagkerfið, og hins hvort hámarksupphæðin verður hækkuð. Ég er viss um að í því felst umtalsverður þensluhvati í samfélaginu. Verði til viðbótar ráðist í framkvæmdir við Norðurál þá er ég smeykur um að sú braut sem hæstv. fjmrh. hefur teiknað upp kunni að grýtast mjög og verða torveldari yfirferðar. Ég held að við þurfum að búa í haginn og gera það sem hægt er til að draga úr þenslu. Eitt af því sem klárlega dregur úr þenslu og hvetur til sparnaðar er nákvæmlega þetta kerfi sem hæstv. fjmrh. kom á.

Ég tel að hér sé mikið í húfi. Þegar ég skoða hagþróun síðustu ára tel ég mig sjá að í reynd hafi orðið vatnaskil með þeirri samstillingu sem tókst um að koma í veg fyrir að verðhækkanir færu yfir rauðu strikin fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég held að þá hafi orðið vatnaskil í hagþróun okkar. Þá tókst ákveðið samstarf sem, ef það lukkast áfram, gerir það að verkum að við getum á næstu árum skapað mikil verðmæti sem munu duga til að fjármagna af ríkisins hálfu drjúgar skattalækkanir og sömuleiðis til að hrinda í framkvæmd drjúgum hluta þeirra velferðarúrbóta sem komið hafa fram, t.d. í tillögum ASÍ og BSRB. Sömuleiðis tel ég að undir bláenda kjörtímabilsins væri einnig mögulegt að leiðrétta svolítið hlut sveitarfélaga.

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri í efnahagsmálum. Það er þetta einstaka tækifæri sem ræður afstöðu Samf. til stefnunnar í efnahagsmálum og þess vegna höfum við tekið mjög jákvætt í margt sem komið hefur fram í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég óttast hins vegar að þegar líður á kjörtímabilið þá kunnum við að sigla inn í miklu meiri ólgusjó. Ég velti því fyrir mér hvort nú sé rétt að draga úr þessum hvata til aukins sparnaðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, þó að ég skilji vel að hann sjái þarna matarholu sem nemur hálfum milljarði og vilji ná henni og þetta sé eitt af þessum stillingaratriðum í frv.: Ef við hefðum þessar 500 millj. til að hvetja launafólk til að efla sparnað, væri ekki hægt að verja þeim með öðrum hætti? Í dag er það svo að við hvert prósent sem launamaðurinn sparar sjálfur aukreitis þá hefur hann fengið 0,1% og það byrjar að telja við fyrsta prósentið. Samtals getur þetta orðið 0,4%. Það munar verulega um þennan pening. Væri ekki hægt að fara þá leið að láta þennan hvata virka eftir að 2% er náð? Launamaðurinn mundi upp að því marki einungis láta stjórnast af skattfrestuninni af hálfu ríkisins annars vegar og hins vegar mótframlagi vinnuveitanda. En eftir það hefði hann aukinn hvata, tvöfaldan hvata á við það sem hann hefur í dag, fyrir þriðja og fjórða prósentið sem hann sparaði. Fyrir það fengi hann ekki 0,1% heldur 0,2%. Það er líklegt að ríkið mundi spara einhver hundruð milljóna króna á þessu. Ég þori ekki að fullyrða um það. En klárlega mundu ekki eins margir ráðast í að fara umfram 2%. Þetta gæti hins vegar leitt til að margir mundu láta freistast til að halda áfram sparnaðinum og fá þessar upphæðir. Þetta vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um og biðja hann að svara einhvern tíma í lok umræðunnar.

Það er sem sagt af umhyggju fyrir hagkerfinu en ekki endilega núverandi stöðu ríkissjóðs sem afstaða Samf. liggur svona fyrir. Við teljum að þó að vel hafi tekist til með þennan sparnað þá sé hlutverki hans alls ekki lokið. Það væri hægt að breyta honum til að nýta hann betur og þannig tækist okkur jafnvel að efla sparnað landsmanna og draga úr hugsanlegri ólgu þegar líður fram undir lok kjörtímabilsins.