Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:23:55 (366)

2003-10-09 11:23:55# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki misskilningur á ferð, heldur hef ég kannski ekki tekið nógu skýrt til orða. Ég talaði um að þetta mundi verka letjandi á launagreiðendurna. Ég tel að þeir geri mikinn greinarmun á því hvort þeir senda þetta í kassann hjá hæstv. fjmrh. Geir Hilmari Haarde eða hvort þetta er hvatningaraðgerð gagnvart starfsmönnum þeirra til að auka sparnað sinn. Það er það sem ég á við. Þetta var auðvitað hluti af þessu þríhliða samkomulagi sem ég lít svo á að hafi tekist milli aðila vinnumarkaðarins og ríkissjóðs á sínum tíma.

Það sem ég gagnrýndi varðandi forsendur frv. eru ósköp einfaldlega tekjuáhrifin á ríkissjóð. Mér finnst mjög sérkennilegt að lesa umsögn frá fjárlagaskrifstofunni þar sem ekki er minnst einu orðin á tekjuáhrifin á ríkissjóð. Til hvers er fjárlagaskrifstofan þá að skoða frv.? Man hæstv. fjmrh. ekki hvenær það var upp tekið og hver rökstuðningurinn var? Hann var sá að fjárlagaskrifstofan fengi öll frv. til yfirlestrar þannig að það lægi alltaf fyrir þegar þau kæmu inn í þingið hvaða útgjalda- eða tekjuáhrif væri þeim samfara á ríkissjóð. Er það ekki? Er þetta ekki rétt munað? Hvernig stendur þá á því að hér kemur frv. þar sem hvorki í greinargerð fjmrh. né í umsögn fjárlagaskrifstofunnar er neinar upplýsingar um þetta að hafa? Ég veit vel að það er hægt að fara yfir í fjárlagafrv. og finna þar út með yfirlegu hvaða tekjuáhrif þetta hefur þar af því að þetta er auðvitað fylgifrv. með þeim forsendum sem fjárlagafrv. byggir á. En ég tel að í hverju frv. af þessu tagi eigi matið á tekjuáhrifunum að koma sjálfstætt fram.