Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:34:34 (371)

2003-10-09 11:34:34# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Kannski er nú ekki miklu að bæta við það sem fram er komið um þetta mál. Það er alveg ljóst að mat manna á fyrirliggjandi aðstæðum er misjafnt. Ég tel að þau fimm ár sem þetta kerfi hefur verið við lýði hafi sýnt það og sannað að umrætt fyrirkomulag, viðbótarlífeyrissparnaður, hefur skotið hér varanlegum rótum og meðlagið úr ríkissjóði var hugsað til þess að greiða fyrir því. Það hefur sem sagt tekist. Þar með tel ég að þörfin fyrir þetta framlag úr ríkissjóði sé í rauninni brott fallin.

Ég hlýt líka að hafna því að með því að ríkissjóður ákvað einhliða að leggja til þetta fjármagn, eins og gert var hér að minni tillögu með lögum haustið 1998, þá sé nánast ekki unnt að fella þetta niður aftur nema þá í tengslum við kjarasamninga, eins og skilja mátti af ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Þingið hefur auðvitað fullt vald til að fella þetta niður alveg eins og þingið hafði fullt vald til að festa þetta ákvæði í lög.

Auðvitað má alltaf deila um hvenær rétt sé út frá efnahagslegum sjónarmiðum að gera breytingu sem þessa. Ég tel ekki að hún muni skipta sköpum í þá átt að draga úr hvatningu manna til þess að spara. Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að hún getur haft þar einhver áhrif. Ég vona að þau verði mjög lítil og helst engin því að auðvitað er mjög brýnt að viðhalda hér þessu sparnaðarformi eins og öðru því sem myndar hinn þjóðhagslega sparnað og við verðum að halda áfram að byggja upp á næstu árum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði einmitt að því hvort málið hefði eitthvað verið rætt við aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda þess að þetta frv. er lagt fram á Alþingi. Svarið við því er einfaldlega nei. Það hefur ekki verið gert. Ég taldi ekki að á því væri nein sérstök þörf eða að einhver skylda væri þar fyrir hendi um slíkar viðræður. En auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt að efh.- og viðskn. leiti álits allra þeirra aðila sem telja sig þarna eiga hagsmuna að gæta.

Mikið er talað um nauðsyn þess að draga úr ríkisútgjöldum. Þau eru samsett úr litlum framlögum hér og þar, misjafnlega litlum og misjafnlega stórum. Þetta er eitt af slíkum framlögum og hér er verið að draga úr ríkisútgjöldum með því að lækka þetta. Þetta er viðleitni í þá veruna.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort hægt væri að breyta fyrirkomulagi þessa kerfis, t.d. þannig að framlag ríkisins kæmi ekki til skjalanna fyrr en eftir að menn væru búnir að spara kannski 2% og þá á bilinu 2--4%, í stað þess að byrja frá fyrstu krónu eins og gert er í dag. Auðvitað er allt slíkt hægt. Það má alveg hugsa sér mismunandi útfærslur á framkvæmd þessa máls. En það er ekki sú tillaga sem hér liggur fyrir af minni hálfu. Ég legg hér til að það verði bara hætt við þetta og lagðar hreinar línur í því sambandi hvað þetta atriði varðar.

Ég tel að við eigum ekki að binda okkur um aldur og ævi í fyrirkomulag sem við höfum tekið upp sem tímabundna hvatningu. Alveg það sama á við um það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi um hlutabréfaafsláttinn. Reyndar finnst mér mjög ánægjulegt að formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs skuli núna tala hér eins og sá sem hefur áhyggjur af því að hlutabréfamarkaður eflist ekki og að verið sé að draga úr hvatningu manna til að kaupa sér hlutabréf. Það er gott ef hann er kominn í okkar lið í því efni.

En um það mál er það að segja að þar hefur þessi hvati verið við lýði í nokkur ár, reyndar alveg frá árinu 1984 í mismunandi mynd sem hefur þjónað sínum tilgangi. Hann hefur þjónað sínum tilgangi og hlutabéfamarkaði hér hefur m.a. vegna þessa fyrirkomulags vaxið mjög fiskur um hrygg. En þá er ekki ástæða til þess að halda því endalaust áfram að greiða með slíkum viðskiptum í formi skattafsláttar. Þetta er að hluta til sambærilegt mál. Þó er það þannig hér, herra forseti, að skattafslátturinn, hvað varðar hið frádráttarbæra iðgjald í vasa launþegans og í rekstri atvinnurekandans, heldur áfram. Þess vegna er hér áfram mjög rík hvatning til þess að spara þó svo að niður falli framlag ríkisins í þessu efni.

Ég vil að öðru leyti þakka hér fyrir undirtektirnar og góðan skilning á efni málsins þó að menn séu, eins og fram kemur, ósammála um tímasetningu og aðstæður að öðru leyti.