Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:50:38 (374)

2003-10-09 11:50:38# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að gera að umræðuefni eitt tiltekið atriði í frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. afnám alþjóðlegra viðskiptafélaga. Nú er það svo að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson lögðumst gegn þessu á sínum tíma og reyndar fleiri þingmenn. Við töldum að með þessu væri verið að aðstoða alþjóðleg fyrirtæki til þess að koma hingað og festa ból sitt á Íslandi og skjóta sér undan skattgreiðslum í heimalandi sínu. Í öllu falli kemur í ljós að þessi tilraun hefur algerlega mistekist og það má í sjálfu sér fagna því.

Ég minnist þess að árum saman var sérstakur fjárlagaliður þar sem verið var að veita fjármuni til að kynna þessi alþjóðlegu viðskiptafélög og til að kosta sérstakan starfsmann í viðskrn. sem sinnti þeim. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað kostaði þessi tilraun sem núna hefur runnið út í sandinn?