Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:54:53 (378)

2003-10-09 11:54:53# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í frv. er fjallað um ýmsar skerðingar á heimili og fjölskyldur sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir og það er auðvitað í órafjarlægð frá þeim kosningaloforðum sem stjórnarflokkarnir, einkum Sjálfstfl. gaf kjósendum í síðustu kosningum. Það er kannski ekki síst af þeim ástæðum sem þeir nú sitja að völdum því að of margir trúðu að þeir mundu standa við stóru orðin í skattamálum.

Um hvað er verið að tala þegar við tölum um skattalækkanir hjá ríkisstjórnarflokkunum? Þeir segja að einhvern tíma undir lok kjörtímabilsins muni skattar lækka um 20 milljarða. En hver voru loforðin? Hægt er að rifja upp landsfund Sjálfstfl. sem talaði um skattalækkanir upp á 21--22 milljarða kr. Það kom fram í Morgunblaðinu í marsmánuði sl. Skyndilega hækkuðu þeir síðan skattaloforðin upp í 27--28 milljarða þegar þeir uppgötvuðu að ekki var gert ráð fyrir að skattleysismörkin hækkuðu í takt við launabreytingar. Þegar þeir standa frammi fyrir raunveruleikanum er aðeins um að ræða 20 milljarða kr. einhvern tíma undir lok kjörtímabilsins.

Það vita auðvitað allir og sjálfstæðismenn ættu að vita það manna best þó að þeir virðist hafa gleymt því núna þegar þeir eru komnir til þings að forsrh. lofaði fyrir þeirra hönd að í upphafi þings yrðu settar fram tímasettar áætlanir um það hvenær skattalækkanirnar kæmu til framkvæmda. Talað var um að lækka virðisaukaskatt af matvælum, helminga skattþrep í erfðafjárskatti, afnema eignarskatt og hækka barnabætur. Við sjáum ekki neitt um þetta í fjárlagafrv.

Hækkunin frá 22 milljörðum upp í 28 milljarða eins og ég sagði var sérstaklega skýrð með því að margítrekað var að skattleysismörkin áttu að halda í við það að tekjuskattur yrði lækkaður um 4% og skattleysismörk áttu þá að fara í 77--78 þús. kr. Nauðsynlegt er að hafa þetta allt í huga því að það er afar sérkennilegt að vera að fjalla um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á þessum tímapunkti en ekki skattalækkanir. Síðan er látið að því liggja að skattalækkanir geti hugsanlega komið í staðinn fyrir launahækkanir eða verið einhvers konar skiptimynt í kjarasamningum. Allt þetta kemur ofan á það sem birtist í frv. sem við fjöllum um núna að verið er að þrengja að vaxtabótakerfinu. Barnabæturnar eru óbreyttar og við sjáum í fjárlagafrv. ýmsar kostnaðarhækkanir í heilbrigðiskerfinu sem eru ekkert annað en dulbúnar skattahækkanir eins og í þjónustugjöldum í heilbrigðiskerfinu og hækkun á lyfjakostnaði. Við sjáum þetta í framlengingu á hátekjuskattinum sem ég hélt að væri sérstakt hugðarefni nýrra þingmanna Sjálfstfl. að mundi falla úr gildi nú um áramótin og við sjáum loforðin birtast í því að verið er að þyngja byrðarnar á þeim sem síst skyldi eins og að lækka atvinnuleysisbæturnar, aumar 77 þús. kr. sem atvinnulausir fá á mánuði sem allir vita að duga ekki fyrir framfærslu og hafa setið eftir á sl. kjörtímabili, en þær eru lækkaðar þegar atvinnulausir fara á atvinnuleysisskrá fyrstu þrjá dagana um hvorki meira né minna en 10 þús. kr. og fara niður í 66 þús., 11% lækkun á atvinnuleysisbótum hjá þeim sem síst skyldi. Full ástæða er til, herra forseti, að rifja upp þau skattaloforð sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir þegar við erum núna að fjalla um skattahækkanir í stað skattalækkana.

Byrjað var á því sem ég skal ekki fara mörgum orðum um sem var rætt í gær að hækka skattana um 1 milljarð á heimilin í landinu gegnum hækkun á bíla og bensín. Mjög athyglisverðar tölur hafa komið fram um það mál frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda og mér þótti athyglisvert að lesa Morgunblaðið í morgun að meira að segja virðist svo vera sem Morgunblaðinu sé farið að blöskra því að sérstakur leiðari er tekinn undir þessar auknu álögur á bifreiðaeigendur. En í fjölmiðlum nýlega kom fram hjá Runólfi Ólafssyni, framkvæmdastjóra FÍB, að hér sé um að ræða að með þessu verði skattbyrði af eldsneyti og bílum í nýjum hæðum og talar hann um 32 milljarða og það segir Runólfur vera 100% þyngri skattbyrði en lögð var á bifreiðaeigendur þegar Davíð Oddsson settist í Stjórnarráðið fyrir 12 árum. Til samanburður getur hann þess að verðbólga á sama tíma hafi verið um 50%.

[12:00]

Síðan hefur komið fram að þetta er auðvitað ekkert annað en skattahækkun þegar um er að ræða 8--12 þús. kr. hækkun að meðaltali á ári á hvern bíleiganda. Ég minnist þess ekki að hæstv. fjmrh., hæstv. forsrh. eða aðrir frambjóðendur Sjálfstfl. hafi boðað þessa hækkun sérstaklega í síðustu kosningum. Þannig er ávallt komið í bakið á kjósendum að loknum kosningum og merkilegt að stjórnarflokkarnir skuli halda velli og að kjósendur séu ekki farnir að sjá í gegnum blekkingavef þeirra.

Í þessu frv. er lögð til aðeins 2,5% hækkun á persónuafslætti, barnabótum og vaxtabótum. Það vekur auðvitað athygli að einungis er miðað við 2,5% hækkun þegar áætlað er að almenn launahækkun opinberra starfsmanna í fjárlagafrv. verði 3%. Hver er skýring hæstv. ráðherra á því að einungis er miðað við 2,5% þegar gert er ráð fyrir í frv. að almenn launahækkun opinberra starfsmanna verði 3% og að launavísitala hækki um 5% í fjárlagafrv.? Persónuafslátturinn hefur fylgt almennum umsömdum launahækkunum eða taxtahækkunum og því er ljóst að um er að ræða aukna skattbyrði umfram það sem verið hefur ef einungis á að miða við 2,5%, og væri æskilegt að hæstv. fjmrh. veitti nánari skýringu á þessu við umræðuna.

Ef miða á við 2,5% verðlagsbreytingar hækkar persónuafslátturinn aðeins um 500--600 kr. og fer úr rúmlega 26.800 á mánuði og hækkar því lítillega, fer í 27.495 úr 26.820 ef ég er með réttar tölur hér. 1% hækkun á persónuafslætti er um 600 millj. kr. og ef við erum að tala um 2,5%, þá er hækkunin um 1,5 milljarðar en ef miðað er við launavísitölu ættu að vera um 3 milljarðar í hækkun á þessum lið.

Herra forseti. Hér er ekkert annað á ferðinni en skattahækkanir sem bitna verst á lægst launaða fólkinu, lífeyrisþegum og atvinnulausum.

Þegar maður lítur til barnabótanna, þá er gert ráð fyrir óbreyttri krónutölu milli ára í frv. og ég spyr um skýringu á því hvers vegna sú tala er óbreytt þegar gert er ráð fyrir að barnabæturnar taki verðlagshækkunum sem nema 2,5% eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Auðvitað er þetta eins og annað í algeru ósamræmi við landsfundarályktanir Sjálfstfl. en þar var kveðið á um að tekjutenging barnabóta yrði með öllu afnumin. Er ekkert að marka þessar landsfundarályktanir Sjálfstfl.? Hverju á fólk að trúa þegar landsfundur Sjálfstfl. kemur saman og segir að afnema eigi allar tekjutengingar á barnabótum og svo þegar raunveruleikinn kemur í ljós, er um að ræða óbreytta krónutölu í fjárlagafrv.?

Ef við skoðum barnabætur síðasta árs og fjárhæðir sem til þeirra er varið á síðasta ári samanborið við árið 1995, áður en þessi ríkisstjórn tók við, þá vantaði á síðasta ári nærri 1.200 millj. kr. til að þær héldu raungildi sínu eins og þær voru á árinu 1995. Þá voru ótekjutengdar barnabætur greiddar með öllum börnum til 16 ára aldurs og vantar verulega á að það sé núna. Einhvern tímann var það reiknað út að á kjörtímabilinu, eða frá 1995, væri búið að skerða barnabæturnar um 10 milljarða kr. Það er því langt í land enn að barnabæturnar eða það fjármagn sem varið er til þeirra haldi því raungildi sem var á árinu 1995 og væri fróðlegt að fá fram hver eru áform ríkisstjórnarinnar að því er varðar barnabætur. Þetta er nú mikið hugðarefni framsóknarmanna þó að þeir hafi ekki staðið við það sem þeir lofuðu á síðasta kjörtímabili í því efni, og spurningin er núna hvort framsóknarmenn ætli að halda sig við sama heygarðshornið og svíkja kjósendur líka á þessu kjörtímabili. Á að hækka barnabæturnar þannig að þær verði greiddar ótekjutengdar með öllum börnum að 18 ára aldri eða hvers er að vænta í þessu efni?

Ég vil fara nokkrum orðum um vaxtabæturnar. Mér finnast rökin sem hæstv. fjmrh. setur fram fyrir lækkun vaxtabóta afar sérkennileg en þær eiga að lækka um, ef ég mann rétt, 600 millj. kr. Rökin eru þau að raunvextir langtímalána hafi lækkað verulega. Síðan segir að þegar ákveðið hafi verið að taka viðmiðunina upp árið 1993 hafi raunvextir á húsbréfum verið 6% og af lánum lífeyrissjóða 7% og nú séu húsbréfavextir 5% og vextir af lánum lífeyrissjóða 5,5--6%. Þetta eru sem sagt rökin að vextir á langtímalánum hafi lækkað verulega á síðustu tíu árum. En það hlýtur að segja sig sjálft, sem ekki er þá getið um í greinargerð með frv., að ef vextir hafa lækkað á þessum tíu árum, þá hljóta vaxtagjöldin væntanlega að hafa lækkað líka og þar með vaxtabæturnar. Síðan vantar auðvitað ýmsar aðrar stærðir inn í þetta eins og að meðallán, t.d. húsbréfalán, hafa hækkað verulega á þessum tíma en þó í engu samræmi við verðlagsbreytingar. Þannig voru meðalhúsbréfalán vegna notaðra íbúða rúmar 2,8 millj. á árinu 1993 en 3,7 millj. árið 2003 eða 32% hækkun og meðallán vegna nýbygginga voru 2,6 millj. árið 1993 en eru í dag tæpar 5 millj. vegna nýbygginga eða 85% hækkun. Þetta hlýtur auðvitað að hafa áhrif á skuldsetningu heimilanna og þar með vaxtabætur. Og því til viðbótar, herra forseti, sem er nauðsynlegt að halda til haga, hafa verið gífurlegar hækkanir á fasteignum og ef við skoðun hækkunina frá ágúst 1993 til ágúst 2003, eða 10 ára tímabili, þá hefur meðalfermetraverð á öllu húsnæði í fjölbýli hækkað um 85%. Það hlýtur auðvitað að koma fram í aukningu á skuldsetningu og þar með vaxtabótum. Ég sé því engin rök fyrir því að fara þá leið sem hæstv. ráðherra gerir og mér finnst hann halda utan við rökin sem hann teflir fram fyrir þessari skerðingu á vaxtabótum því sem máli skiptir sem er hækkun á lánum og gífurlegar hækkanir á verði á fasteignum. Síðan því til viðbótar, af því að hæstv. ráðherra nefnir vaxtalækkanir sem rökin til þess að lækka vaxtabætur, þá er ekkert tillit tekið til þessara miklu verðhækkana og líka mikilla vaxtahækkana í félagslega íbúðakerfinu þar sem vextir vegna viðbótarlána eru 5,6% en vextir í félagslega íbúðakerfinu voru 2,4%. Þetta eru vaxtahækkanir en ekki vaxtalækkanir sem gefa þá varla tilefni til þess að lækka vaxtabæturnar.

Skuldaaukning fjölda heimila er af þessum tvennum toga; vegna mikilla verðhækkana á íbúðarhúsnæði eða um 85% og hækkana hjá fjölda fólks sem áður átti félagslega eignaríbúð á vöxtum þeirra úr 2,4% en það greiðir nú 5,6% vexti þannig að þetta eru auðvitað bara gervirök sem verið er að búa til til þess að finna einhverja leið til þess að skerða vaxtabætur, skerða kjör heimilanna til þess að fá meiri pening inn í ríkissjóð.

Síðan má spyrja, herra forseti, hvaða áhrif þetta hefur. Hverjir lenda í þessu? Eftir því sem ég hef skoðað og aflað upplýsinga um, þá mun þetta hafa veruleg áhrif á 2.300--2.400 einstaklinga sem fá vaxtabætur. Ég er hér með dæmi af hjónum sem eru með eignarskattsstofn upp á 2--3 millj. og þessi hjón eru með tekjur á bilinu 3--4 millj. kr. Miðað við 5,5% af skuldum þeirra í staðinn fyrir 7% nemur skerðing á vaxtabótum þeirra 17 þús. kr. Það munar um það, herra forseti, og þetta er auðvitað bein kjaraskerðing hjá þessu fólki þegar verið er að fara þessa leið. Og ef við tökum fólk með tekjur á bilinu 4--5 millj. og sama eignarskattsstofn upp á 2--3 millj., þá er skerðingin á vaxtabótum vegna þeirrar leiðar sem ríkisstjórnin hefur valið um 26 þús. kr. Þegar maður lítur til þess hvernig meðaltal vaxtabóta er hjá þessu fólki horft til atvinnutekna og heildarskulda vegna íbúðarhúsnæðis skipt yfir á tíundir hjá þeim sem fá vaxtabætur, þá eru vaxtabætur mjög svipaðar hjá þeim sem hafa lægstu tekjurnar og þeim sem hafa hæstu tekjurnar þannig að vaxtabætur eru ekkert endilega að renna frekar til hátekjufólks en til lágtekjufólks. Eftirstöðvar af skuldum þeirra sem eru með vaxtabætur eru frá tæpum 4 millj. upp í 7,5 millj. kr. Herra forseti. Mér finnst því skorta öll rök fyrir að fara þessa leið sem hæstv. fjmrh. ætlar að fara.

Síðan kemur hátekjuskatturinn. Ég man ekki betur en þegar hæstv. fjmrh. og forsrh. voru spurðir um þennan skatt í kosningunum, að þá hafi svarað verið á þann veg að það væri auðvitað sjálfgefið að hann rynni út um áramótin og ég býst við því að nýr hv. þm., 10. þm. Reykv. n., Sigurður Kári Kristjánsson, hafi trúað á því að hátekjuskatturinn mundi falla niður núna um áramótin. Ég býst líka við því að hv. þm. Birgir Ármannsson, 11. þm. Reykv. s., hafi trúað því að hátekjuskatturinn félli niður um áramótin og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessir hv. þingmenn munu greiða þessu frv. atkvæði. En nú er hann framlengdur og á að stiglækka í 4% á næsta ári og í 2% árið 2005 og þá á hann að falla niður. Þetta á að gefa ríkissjóði um 80 millj. á næsta ári en greiðendur sérstaks tekjuskatts við álagningu 2003 voru tæplega 14.600. Þetta er ekki stór hópur af þeim sem greiða útsvar, eða um 6,8% af þeim sem greiða útsvar greiða hátekjuskattinn. En þar sem tekjumörk sérstaks tekjuskatts hækka minna en launabreytingar þá má gera ráð fyrir að greiðendum sérstaks tekjuskatts muni fjölga. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki hafi komið til greina að hækka tekjumörkin, sérstaklega hjá einstaklingum vegna þess að þau eru alls ekki há, þau eru um 340 þús. kr. á mánuði en þá byrjar hátekjuskatturinn að tikka, en um 680 þús. kr. hjá hjónum sem er verulega há fjárhæð kannski um 7--8 millj. á ári, en mér finnst tekjumörkin frekar lág varðandi einstaklingana og hefði átt að skoða að hækka þau. Samfylkingin vill að þessi skattur hverfi en við höfum setið hjá þegar greitt hefur verið um hann atkvæði á síðustu þingum þar sem ríkisstjórnin hefur ekki haft burði til þess að lækka skatt á fólki með lægstu tekjurnar, atvinnulausu og tekjulágu fólki með um 90--100 þús. kr. á mánuði. Við teljum það vera forgangsverkefni að skoða skattalækkanir á þessa hópa.

Síðan væri forvitnilegt að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það áður en þessari umræðu lýkur hver eru áform hans varðandi stimpilgjöldin. Því hefur verið marglofað og var lofað á síðasta kjörtímabili að fella niður stimpilgjöld í áföngum og ég sé ekki að þess sjái stað í því fjárlagafrv. eða í þeim frv. sem hafa verið boðuð á þessu þingi.