Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 12:27:36 (380)

2003-10-09 12:27:36# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Kosningabaráttan síðastliðið vor var eftirminnileg fyrir margar sakir. Það er þó ekki ofsögum sagt að hún hafi meira og minna snúist um skattamál þegar á hólminn var komið. Það má meira að segja fullyrða, með góðum rökum, að hinn tæpi stjórnarmeirihluti ríkisstjórnarinnar hafi náðst með loforði um skattalækkanir. Í kosningabaráttunni bentu margir manni oft á að stjórnarflokkarnir byðu einfaldlega mestar skattalækkanir og því mundu þeir fá þeirra atkvæði. Nú kemur hins vegar þetta val fólksins í bakið á því. Nú ætlar ríkisstjórnin að svíkja kosningaloforð sín um skattalækkanir og er nú talað á allt öðrum nótum en var gert í kosningabaráttunni.

Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar á nefnilega ekki að lækka skatta heldur hækka þá. Stjórnarflokkarnir hafa hengt sig í 80 millj. kr. skattalækkun á svokölluðum hátekjuskatti af miklum rembingi og monti. En það sem sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og jafnvel sumir fjölmiðlar virðast ekki átta sig á er að hátekjuskatturinn hefði runnið sitt skeið á enda í lok ársins ef ekkert hefði verið gert. Þannig er hin rausnarlega skattalækkun upp á 80 millj. kr. í raun 1.400 millj. kr. skattahækkun á millistéttina í landinu. Það er pólitísk ákvörðun þessarar ríkisstjórnar að setja á svokallaðan hátekjuskatt næstu tvö árin sem ella hefði ekki lagst á millitekjufólkið í landinu. Það er ekki skattalækkun að leggja á skatt sem hefði annars ekki verið lagður á, þótt hann sé eilítið lægri en hann var. Eina skattalækkun ríkisstjórnarinnar er því í raun skattahækkun. Nú hefur hæstv. fjmrh. staðfest það að gott samkomulag hafi verið á milli Sjálfstfl. og Framsfl. um að standa fyrir þessari skattahækkun. Síðan má einnig minnast á 1 milljarðs kr. skattahækkun á bensíni og þungaskatti og skerðingu vaxtabóta um 600 millj. kr.

Það sannast nú sem við í Samfylkingunni sögðum í kosningabaráttunni að Sjálfstfl. er skattahækkanaflokkur þegar til kastanna kemur. Það er eitt stjórnmálaafl í landinu sem boðar hreinar og klárar skattalækkanir þetta árið og það er Samfylkingin. Samfylkingin hefur boðað helmingslækkun á virðisaukaskatti á matvælum sem mundi færa íslenskum heimilum um 5 milljarða kr. Maður hefði nú haldið að þessari hugmynd yrði tekið fagnandi hjá ýmsum þingmönnum ríkisstjórnarinnar, sérstaklega hinum nýju og ungu þingmönnum Sjálfstfl. sem margir hverjir voru hreinlega kosnir út á loforð þeirra um skattalækkanir. En aldeilis ekki. Nú segja þessir hv. þm. að þeir geti ekki stutt slíkar skattalækkanir þar sem þær eru ekki á þeirra forsendum. Hvers lags málflutningur er þetta eiginlega? Annaðhvort styður maður skattalækkanir eða ekki. Síðan benda þessir nýju þingmenn á að þeir vilji bíða eftir skattapakka ríkisstjórnarinnar, sem kemur ekki fyrr en 2005 að hennar eigin sögn. Það er kannski ágætt að vita að þessir ungu herramenn munu ekki styðja neinar skattalækkanir fyrr en a.m.k. eftir tvö ár. Það væri nú gaman að heyra viðbrögð frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna um svör fulltrúa þeirra á þingi. Það á ekki að skipta nokkru máli hvaðan skattalækkanir koma ef maður meinar það sem maður segir. En það er ekki nóg með að þessir sjálfskipuðu siðapostular frjálshyggjunnar neiti að styðja skattalækkanir, þótt þeim séu færðar þær upp í hendurnar, þá heyrist ekki bofs í þeim um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Við í Samfylkingunni héldum að við gætum átt bandamenn í sumum þessara nýju þingmanna við að lækka skatta og álögur, af nógu er að taka, en svo er augljóslega ekki.

Sjálfstfl. var ekki lengi að beygja þessa ungu menn undir flokkslínuna, það er aðeins rétt vika liðin frá þingsetningu og þess vegna harma ég sérstaklega viðbrögð þessa hóps þingmanna.