Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 12:35:16 (384)

2003-10-09 12:35:16# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[12:35]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hv. þm. sé einfaldlega að snúa út úr meginatriði í málflutningi mínum sem snerist um þá pólitísku ákvörðun að framlengja hátekjuskattinn.

Samf. hefur sagt að þurfum að forgangsraða í þágu mannúðar og menntunar. Hvað felst í því? Í því felst ekki þessi litla viðleitni ríkisstjórnarinnar til skattalækkana sem snýr að hátekjuskattinum. Við teljum að af nógu sé að taka annars staðar. Við teljum að svigrúm ríkisstjórnarinnar til skattalækkana sé til staðar.

Við höfum boðað metnaðarfullar tillögur í að lækka skatta á matvælum sem eins og fram kom í máli mínu hefur ekki notið stuðnings Sjálfstfl. eða annarra stjórnarflokka af þeirri skringilegu ástæðu að þær séu ekki á þeirra forsendum. Þess vegna tel ég framferði ýmissa þingmanna, sérstaklega í Sjálfstfl. sem hafa gefið sig út fyrir að vera skattalækkunarsinnar, mjög skrýtið í ljósi þeirra ákvarðana sem nú liggja fyrir hjá ríkisstjórninni.