Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:50:33 (391)

2003-10-09 13:50:33# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Frú forseti. Það er um tvennt að velja, að halda áfram að berja höfðinu við steininn og setja allt sitt traust á búvörusamninginn frá árinu 2000 eða að viðurkenna að forsendur samningsins eru brostnar, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur nú gert. Við þurfum að grípa til ráðstafana í samræmi við þá niðurstöðu. Það er gott að hæstv. landbrh. skuli hafa stofnað nefnd en hæstv. ráðherra hefur setið í ráðuneytinu í fjögur ár. Þetta er ekki nýr vandi.

Það er líka rétt hjá hæstv. landbrh. að Samf. hefur gott hjartalag og er skilningsrík. En hún er líka mjög skynsöm --- mjög skynsöm, hæstv. landbrh. Þess vegna þurfum við að einbeita okkur að innanlandsmarkaði og sinna þörfum hans betur en hingað til hefur verið gert. Við eigum ekki að einblína á útflutninginn sem bjargráð kjötframleiðenda. Útflutningsskyldan mun ekki koma á jafnvægi hér á landi, það er fullreynt með hana.

Við skulum líka hafa það í huga, frú forseti, að aðstæður sauðfjárbænda verða ekki slitnar úr samhengi við stöðu landsbyggðarinnar almennt. Í því skyni er vert að benda á ályktanir búnaðarþinga 2003 og 2002 um bráðaaðgerðir stjórnvalda vegna fjárhagsstöðu bænda almennt. Um hvað álykta bændur, frú forseti? Það er athyglisvert. Þeir álykta um þéttara og betra velferðarnet á landsbyggðinni. Þeir álykta um hækkun dreifbýlisstyrksins svo unglingar komist örugglega í framhaldsskóla, um hækkun barnabóta, jöfnun upphitunarkostnaðar og bætta heilbrigðisþjónustu í dreifbýli. Sá vandi sem hér er við að glíma snýr ekki einvörðungu að framleiðslunni, þó vissulega sé sá vandi mikill, heldur um mannsæmandi kjör til handa stéttinni, sauðfjárbændum og bændum almennt.

Það er eins gott að þingheimur horfist í augu við að útflutningur dilkakjöts hefur ekki reynst sú vonarstjarna sem menn héldu heldur vonarpeningur sem litlu hefur skilað til bænda sjálfra.