Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:55:25 (393)

2003-10-09 13:55:25# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Að óbreyttu stefnir í að tekjur sauðfjárræktarinnar í heild lækki um 250--300 millj. kr. vegna verðlækkunar hjá afurðastöðvunum og aukinnar útflutningsskyldu. Sauðfjárbændur hafa ekki það borð fyrir báru að geta tekið slíkri tekjuskerðingu. Við bætist svo beint upplausnarástand í málum afurðastöðva og á kjötmarkaði hér á landi. Forustumenn bænda, ekki síst landbrh., hafa haft stór orð um óheilbrigða viðskiptahætti á kjötmarkaðnum og haldið því fram að fjármálastofnanir sem hafa stórfyrirtæki í alifugla- og svínarækt undir sínum handarjaðri beiti óhóflegum niðurboðum og skekki alla samkeppni kjötgreina. Fari fram sem horfir mun allt atvinnu- og byggðamunstur rústast í stórum landshlutum. Þrátt fyrir stór orð hefur hæstv. landbrh. ekkert aðhafst í þessum samkeppnismálum.

Þingmenn Vinstri grænna hafa flutt lagafrv. hér á Alþingi sem miðar að því að takmarka svigrúm banka og fjármálastofnana til að styðja undirboð á almennum samkeppnismarkaði. Brýnt er að það mál nái fram að ganga sem fyrst.

Þeim aðgerðum sem nú þarf að grípa til gagnvart sauðfjárbændum má skipta í tvennt. Í fyrsta lagi bráðaaðgerðir til að verja bændur frekari tekjumissi. Það má gera með sérstökum eyrnamerktum framlögum inn í núgildandi sauðfjársamning sem gangi beint til bændanna sjálfra. Hins vegar þarf að móta nýja framtíðarstefnu í landbúnaði sem m.a. verður að fela í sér að kjör bænda geti batnað og byggð í sveitunum styrkst á komandi árum.

Frú forseti. Bráðaaðgerðir strax --- ekki eftir nokkrar vikur --- áður en sláturtíð lýkur þannig að bændur geti gert ráðstafanir nú þegar í haust. Ég tel það brýnast í dag að þegar í stað verði gripið til bráðaaðgerða til aðstoðar við sauðfjárbændur áður en sláturtíð lýkur í haust þannig að hægt sé að taka raunhæft á málinu í framhaldinu.