Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:57:38 (394)

2003-10-09 13:57:38# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Mér varð óneitanlega bilt við þegar ég heyrði hæstv. málshefjanda bera mér það á brýn að ég hefði talað eins og stjórnarandstæðingurinn á fundinum á Hellu. Í þessum sal hefur það aldrei farið á milli mála hvaða skoðanir ég hef í landbúnaðarmálum. Ég hef lýst skoðunum mínum bæði í ræðu og riti og talað sem stjórnarliði, hv. þm., en ekki sem stjórnarandstæðingur.

Enn á ný erum við að ræða hér um tekjuskerðingu bænda sem á heildina litið verður á milli 200 og 250 millj. kr. á þessu ári. Það er ekki síst vegna þess hvernig staðan hefur verið á kjötmarkaðnum í um rúmt ár. Hvíta kjötið hefur flætt inn á markaðinn á niðurgreiddu verði og bankarnir hafa hjálpað framleiðendum til að halda því verði. Í rauninni ætti Samkeppnisstofnun að taka á því máli, að það sé verið að setja vöru á markað undir framleiðslukostnaði.

Ég vil líka bregðast við því sem hér hefur verið rætt um, að fækkun sláturhúsa væri ekki af hinu góða. Ég er alveg þvert á móti sannfærð um að þessi fækkun, úrelding sem verið er að fara í núna, úr 17 sláturhúsum í 11, er af hinu góða. Sláturhúsin verða stærri og öflugri og meiri hagræðing ætti að skila sér til bænda þegar til lengri tíma er litið.

Hvað varðar útflutningsskylduna þá spyr ég: Hvernig hefði markaðurinn verið í dag ef ekki hefði þurft að flytja út kjöt? Þá væri yfirfullur markaður af lambakjöti ofan á allt annað. Það varð að flytja út kjötið og verður að gera það. Það kjöt sem er fram yfir innanlandsneysluna verðum við að flytja út. Sem betur fer hafa þessi nýju sláturhús nýja tækni, gaspökkun. Það er hægt að flytja út kjöt í auknum mæli, bæði til Bandaríkjanna, Danmerkur og Ítalíu.