Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:00:01 (395)

2003-10-09 14:00:01# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Sauðfjárbúskapur á Íslandi er á heljarþröm, jafnvel að syngja sitt síðasta ef ekki verður brugðist við með öflugum og skjótum hætti. Á undanförnum árum hefur fjarað hratt undan greininni og sauðfjárbændur eru fullir örvæntingar um afkomu sína og möguleika greinarinnar, enda lái þeim hver sem vill í ljósi ráðleysis yfirvalda. Það verður að grípa til aðgerða sem duga til að gera sauðfjárbændum kleift að rétta framleiðslu sína við. Innantómar yfirlýsingar duga ekki til og bændur, frú forseti, lifa ekki á bröndurum einum saman. Eða getur það verið, frú forseti, að hæstv. landbrh. sé hreykinn af störfum sínum í þágu sauðfjárbænda í ráðherratíð sinni?

Frú forseti. Þær aðgerðir sem þarf að grípa til í málefnum sauðfjárbænda eru m.a. þær að afnema útflutningsskylduna sem á sér engan samjöfnuð í íslensku viðskiptalífi, að leyfa tvær gerðir sláturhúsa, aðra sem uppfyllir kröfur innanlandsmarkaðar og hina með útflutningsleyfi, að gagnger endurskoðun fari fram á markaðssetningu innan lands, en markaðssetning á lambakjöti er fjarri því að standast samanburð við það sem viðunandi telst og, frú forseti, að endurskoða greiðslur til sauðfjárbænda með það að markmiði að þeim sem vilja hætta sé gert það mögulegt með byggðagreiðslum til nýtingar við aðra atvinnuuppbyggingu til sveita, en þeir sem vilja framleiða geri það áfram. Valið væri þeirra. Með þessu móti er stuðlað að jafnvægi í greininni og þeim sauðfjárbændum sem vilja snúa sér að annarri atvinnuuppbyggingu til sveita gert það kleift með réttlátum og sómasamlegum hætti.