Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:10:20 (400)

2003-10-09 14:10:20# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Sú tillaga ríkisstjórnarinnar sem liggur fyrir þessum fundi um að skerða sérstaklega vaxtabætur, skerða vaxtabætur til skuldugra framteljenda, er skammarleg.

Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sagði fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan í sjónvarpsviðtali í Kastljósi, og með leyfi virðulegs forseta ætla ég að fá að reyna með hjálp tækninnar að vitna í orð hans orðrétt:

,,En því má ekki fólkið í landinu fá skattalækkanir sem það getur notað m.a. til að borga niður sínar skuldir? Ríkið er búið að borga niður mikið af sínum skuldum. Fólkið í landinu þarf líka að borga niður sínar skuldir. Það fær tækifæri til þess með bættum kjörum, með því að skattar lækki svona mikið. Ég held að það sé akkúrat rétti tíminn til að færa fólkinu í landinu með beinum hætti árangurinn af verkum manna.``

Þetta var boðskapur hæstv. forsrh. fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan. Það átti að beita svona miklum skattalækkunum til þess að hjálpa fólkinu í landinu við að borga niður skuldir sínar. Og núna var akkúrat rétti tíminn til þess að grípa til þessara ráðstafana.

Virðulegur forseti. Hvar er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson núna? Hvar er hæstv. forsrh. núna þegar þing er komið saman og hann og ríkisstjórn hans er að efna þessar yfirlýsingar gagnvart fólkinu í landinu og skuldum þess? Hvar er þessi hæstv. forsrh., virðulegur forseti?

Ég held, virðulegur forseti, að ég lesi orð hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar aftur vegna þess að sú tilaga sem liggur fyrir þessum fundi hljóðar ekki upp á það að hjálpa eigi fólkinu í landinu að borga niður sínar skuldir. Hún hljóðar ekki einu sinni upp á það að leyfa fólkinu í landinu að búa við sömu skilyrði og það bjó við þegar forsrh. mælti þessi orð í vor. Nei, hún hljóðar upp á það að forsrh. ætlar að efna orð sín með því að skerða vaxtabætur um 600 millj. kr. og svíkja þar með ekki aðeins það sem hann lofaði, að lækka skattana, heldur ganga þvert gegn því sem hann lofaði, ganga þvert gegn því með því að gera fólkinu í landinu beinlínis erfiðara fyrir að borga skuldir sínar.

Við vitum um hvaða fólk er að ræða, hæstv. forseti. Um er að ræða fyrst og fremst ungt fjölskyldufólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og býr við óhóflegar skattaálögur. Ég hygg að hver einasti þingmaður í þessum sal, fyrir utan auðvitað þingmenn Vinstri grænna, hafi sagt í kosningabaráttunni í vor að byrðum yrði að létta af þessu fólki.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að lesa aftur yfirlýsingar hæstv. forsrh. frá því í vor:

,,En því má ekki fólkið í landinu fá skattalækkanir sem það getur notað m.a. til að borga niður sínar skuldir? Ríkið er búið að borga niður mikið af sínum skuldum. Fólkið í landinu þarf líka að borga niður sínar skuldir. Það fær tækifæri til þess með bættum kjörum, með því að skattar lækki svona mikið. Ég held að það sé akkúrat rétti tíminn til að færa fólkinu í landinu með beinum hætti árangurinn af verkum manna.``

Tilvitnun er lokið, virðulegur forseti.

[14:15]

Þessi orð eru efnd, ekki bara með því að svíkja öll fyrirheitin um skattalækkunarfrumvörpin sem áttu að birtast hér í haust heldur með því, eins og við höfum rakið hér síðustu daga, að hækka ýmis gjöld og skatta. Fyrir ýmsum af þeim aðgerðum má kannski færa rök. En ekki fyrir þessari aðgerð, virðulegur forseti, að minnka stuðninginn og auka sérstaklega álögur á ungt skuldsett fjölskyldufólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Í stað þess að efna fyrirheit sín við fólkið í landinu, um að hjálpa því við að lækka skuldir sínar með því að létta af því sköttunum, á að draga úr vaxtabótum. Það er ekki bara að svíkja kosningaloforð, það er að ganga þvert gegn því sem maður segir.

Stundum eru ekki aðstæður til að efna loforð. Það getur þurft að draga það og gæti þurft að ganga eftir því. En það er auðvitað ekkert annað en ósvífni, virðulegur forseti, að ganga með jafnbláköldum hætti þvert gegn yfirlýsingum sínum. Þessi hópur, ungt fjölskyldufólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, er sennilega sá hópur skattgreiðenda sem síst má við því að skattar þess séu hækkaðir.

Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. hefur reynt að færa einhver rök fyrir þessari skattahækkun. En þar stendur auðvitað ekki steinn yfir steini. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Það er eins og um annað í málflutningi hans á þessu haustþingi, að það sem heitir í fjmrn. að eitthvað lækki virðist fyrir okkur hinum öfugt, að það hækki. Því hefur t.d. verið haldið fram að ástæðan fyrir því að dregið sé úr vaxtabótum sé sú að hér hafi vextir verið að lækka, þar með kostnaður heimilanna og því rétt að breyta þessum viðmiðunum. En hér hefur sama fjármálaráðuneyti lagt fram frv. til fjáraukalaga. Þar kemur skýrt og greinilega fram hið gagnstæða, að vaxtabætur þarf að auka í ár. Hvers vegna eru vaxtabæturnar að aukast? Þær aukast í ár vegna þess að vaxtakostnaður greiðendanna hefur aukist. Það er auðvitað þannig.

Það er auðvitað ekki þannig, virðulegur forseti, að vextirnir á húsnæðislánunum sem fólk tók fyrir þremur árum eða fimm árum verði lækkaðir núna. Það er ekki þannig þó um sinn hafi kannski langtímavextir lækkað. Auðvitað er það ekki þannig að þeir sem eru búnir að ráðast í fjárfestingar og kaupa sér hús fái endurgreidd afföllin af húsbréfunum af því að kjörin á lánamörkuðum séu orðin svo góð. Auðvitað ekki og fjarri því. Það er auðvitað fyllilega ómaklegt gagnvart þessu unga fjölskyldufólki að raska með þessum hætti, þeim forsendum sem það hefur gefið sér fyrir því að ráðast í stærstu fjárfestingu lífsins.

Það er mjög mikilvægt þegar ungt fólk stofnar til heimilis og kaupir íbúð til að búa saman í og ala upp sín börn, að þær forsendur sem til grundvallar eru lagðar haldi og það komi ekki stjórnmálamenn eins og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og breyti þeim og dragi úr stuðningnum.

Það er dálítið skrýtið þegar hæstv. fjmrn. segir okkur að vextir séu nú lágir og því eigi að draga úr vaxtabótum. Þegar menn aðgæta þriggja ára hugmyndir fjmrn. þá gerir fjmrn. ráð fyrir því að vextir muni hækka mjög ört vegna þenslu á næstu árum. En gerir fjmrn. ráð fyrir að þá muni viðmiðin í vaxtabótunum hækka aftur? Nei, virðulegur forseti, fjmrn. gerir ekki ráð fyrir því að þegar vextir hækki aftur þá aukist vaxtabæturnar á ný.

Hér verður auðvitað, virðulegur forseti, að kalla eftir Framsfl. Hér verður að kalla eftir fulltrúum Framsfl. í umræðuna. Hvað er hér á ferðinni? Hér eru á ferðinni grundvallaratriði sem varða þann hóp sem Framsóknarflokkurinn veitti fyrst 90% lán. Það er auðvitað þannig að ein af ástæðunum fyrir því að vaxtabæturnar eru að aukast er sú að það var horfið frá verkamannabústaðakerfinu. Það voru tekin upp 90% lán með verðtryggingu og 5,8% raunvöxtum til efnaminnsta fólksins í landinu, til þess að það gæti fjármagnað sér kaup á íbúðarhúsnæði. Því var lofað og Framsfl. lofaði því aftur og aftur og aftur og aftur að greiðslubyrði efnaminnsta fólksins í viðbótarlánakerfinu yrði ekki þyngri en greiðslubyrði þess var í verkamannabústaðakerfinu. Þessu lofaði Framsfl. efnaminnsta fólkinu aftur og aftur og aftur og aftur. Þeir voru spurðir, ekki einu sinni og ekki tvisvar og ekki þrisvar: Verða ekki vaxtabæturnar skertar? Þeir sögðu nei. Við hljótum að ætlast til að það verði gerð grein fyrir því hversu mikið greiðslubyrði þessa hóps þyngist við þessar aðgerðir. Við hljótum að kalla eftir því að fulltrúar Framsóknarflokksins í þessum sal skýri með hvaða hætti þeir hafa gleymt loforðum sínum gagnvart kjósendum.

Virðulegur forseti. Auðvitað eru ýmis atriði í þessu frv. sem vert er að ræða önnur en þau sem snúa að vaxtabótunum. En ég hef kosið að draga vaxtabæturnar sérstaklega fram. Þó að það hafi ekki verið sérstakt forgangsmál hjá okkur í Samf. að fella niður sérstaka tekjuskattinn, sem sumir hafa ranglega nefnt hátekjuskatt, þá leggst hann talsvert þungt á fólk sem hefur þunga framfærslubyrði, miklar skuldir, hefur fyrir börnum að sjá og þarf þess vegna að vinna mikið. Þegar menn leggja auknar álögur á þennan hóp með því að skerða vaxtabæturnar og hafa árum saman dregið úr stuðningi við þennan hóp í barnabótakerfinu, þá er það auðvitað, fyrir Sjálfstfl., að bíta höfuðið af skömminni að endurnýja svo líka sérstaka tekjuskattinn. Þegar þetta spilar allt saman, lægri vaxtabætur, lægri barnabætur og endurupptaka á sérstaka tekjuskattinum, þá eru menn að gera þessu fólki, barnafólki sem er að koma sér upp húsnæði, ákaflega erfitt fyrir, virðulegur forseti, svo ekki sé meira sagt. Hér er auðvitað verið að ganga þvert gegn því sem menn hafa lofað.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju með ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar fyrr í dag við þessa umræðu. Mér fannst gleðiefni að fulltrúi Vinstri grænna í þessari umræðu skyldi með svo jákvæðum hætti fjalla um skattalækkanir og opna fyrir það í fyrsta sinn að hv. þm. Ögmundur Jónasson telji koma til greina að skoða, í því góðæri sem í hönd fer, skattalækkanir. Það eru nýir tónar hjá þingmönnum Vinstri grænna og full ástæða til að fagna því.

Við í Samf. höfum auðvitað deilt þeim sjónarmiðum með stjórnarflokkunum að ef rétt er á málum haldið muni á þessu kjörtímabili gefast nokkuð svigrúm til skattalækkana. Við höfum hins vegar haft allt aðrar áherslur í því efni en stjórnarflokkarnir og leggjum mesta áherslu á matvælaverðið eins og fram hefur komið, að lækka virðisaukaskattinn á matvörunni. Við teljum það auðvitað fráleita ráðstöfun í skattamálum að draga úr vaxtabótum til þeirra skattgreiðenda sem helst þarfnast stuðnings af skattkerfi okkar, sem verst hafa farið út úr jaðarsköttunum eins og sýnt hefur verið fram á með fjölmörgum dæmum.

Ég vil líka fagna yfirlýsingum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þm. Framsfl., um vaxtabæturnar. Hann hefur tekið undir þau sjónarmið að rökstuðningur hæstv. fjmrh. fyrir því að skerða vaxtabæturnar séu alla vega hæpnar. Það er eðlilegt að stjórnarþingmaður taki ekki dýpra í árinni við 1. umr. En sá rökstuðningur er auðvitað bara, virðulegur forseti, hreint fráleitur.

Þá hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ágætlega bent á hvernig verið er að skerða kjör hinna verst settu með þessu frv. með því að persónuafslátturinn fylgir ekki einu sinni launakjörum. Hann fylgir ekki launavísitölu heldur og eru það auðvitað talsverðar auknar álögur á þá lægst settu ef persónuafslátturinn á ekki að fylgja launaþróun.

Að síðustu vildi ég, virðulegur forseti, fá að spyrja hæstv. fjmrh. þeirrar spurningar sem hann var spurður að í morgun, um alþjóðlegu verslunarfélögin. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði að því hvað þessi tilraun með alþjóðlegu verslunarfélögin hefði kostað, vegna þess að sú tilraun hefur greinilega algjörlega mistekist og verið mistök frá upphafi. Hæstv. fjmrh. svaraði ekki þeirri spurningu en vísaði á viðskrh. sem er ekki viðstaddur og jafnvel ekki á landinu. Mér finnst, hæstv. fjmrh., ekki annað en sjálfsagt mál að ráðherra leiti eftir því við ráðuneytið að við fáum þessar upplýsingar inn á fundinn. Þessi umræða er greinilega langt frá því að vera búin og það getur ekki verið mjög flókið fyrir hina fjölmörgu starfsmenn fjmrn. að fletta upp og athuga hversu mikill kostnaður hefur verið við þessi mistök stjórnarliðsins. En ef ekki, þá getur eflaust hv. þm. Birgir Ármannsson upplýst okkur um kostnaðinn, a.m.k. gagnvart Verslunarráðinu.

Virðulegur forseti. Það er freistandi að fá í þriðja sinn að lesa upp yfirlýsingar hæstv. forsrh. frá því á vordögum. Ég ætla þó ekki að íþyngja þingheimi með því en lýsi furðu minni á því að þessar og aðrar yfirlýsingar forsrh. og fjmrh. um hvað þeir ætluðu að gera á þessu þingi í haust hafi ekki hafa verið spilaðar aftur og aftur á öldum ljósvakans á liðnum dögum. Það sætir furðu vegna þess að auðvitað er það bæði hlutverk stjórnarandstöðu og fjölmiðla að ganga eftir því að menn efni orð sín.