Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:29:29 (402)

2003-10-09 14:29:29# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, vel man ég, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde, þegar fjölmiðlar spiluðu orð mín um það að við í Reykjavíkurlistanum ætluðum að lækka gjöld á Reykvíkinga. Mér fannst ekkert athugavert við að þau væru spiluð aftur og aftur og aftur. Auðvitað er það hlutverk fjölmiðla að veita stjórnmálamönnum aðhald. Ég ætlast bara til þess að hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni sé veitt sama aðhald og öðrum í því efni og að menn þori að spila aftur yfirlýsingar hans, m.a. um skattamál, þegar tilefni er til, hæstv. fjmrh.

Hitt vekur nokkra athygli ef fjmrn. gerir ráð fyrir því að stýrivextir Seðlabankans hækki umtalsvert en það muni ekki hafa áhrif á langtímavexti. Ég ætla svo sem ekki að deila hér við hæstv. fjmrh. um þetta atriði en það breytir ekki grundvallaratriði málsins, þ.e. að vaxtabætur eru hærri í ár vegna þess að vaxtabyrði heimilanna er meiri. Fólkið er að borga meira í vexti. Vextirnir á lánum sem fólk er búið að taka eru ekkert að fara að lækka. Þess vegna á viðmiðið um vaxtabætur ekki heldur að lækka.

Ef hæstv. fjmrh. vill efna loforð um að lækka skattana til að hjálpa fólkinu í landinu til að greiða niður skuldir þá á hann að auka vaxtabæturnar en ekki draga úr þeim.