Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:34:04 (406)

2003-10-09 14:34:04# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir sjónarmiðum varðandi vaxtabætur. Ég held að sé rétt að árétta að þetta hlýtur að spila saman og tillögur af því taginu sem koma frá ríkisstjórn í þessu máli verður að skoða með hliðsjón af málinu í heild. Þegar menn hafa tekið ákvörðun um fjárfestingar á tilteknum forsendum um stuðning frá ríkissjóði þá verður að fara ákaflega varlega í að breyta þeim reglum. Við þurfum að skoða vandlega hvort af þeirri breytingu hljótist vandræði sem menn sjá ekki fyrir núna.

Ég vil ekki taka þátt í því að gera breytingar sem koma fólki mjög illa og breyta þeim forsendum sem það lagði til grundvallar þegar það réðist í þá fjárfestingu sem íbúðakaup eru. Þetta er því nokkuð sem menn verða að skoða vandlega í þinglegri meðferð.

Eitt af því sem menn hafa verið að gera á undanförnum árum, og kom fram í máli þingmannsins, er að hækka vexti á lánum úr gamla Byggingarsjóði ríkisins sem voru 0% eða 1%. Það var rökstutt með því að þeir sem ættu í erfiðleikum að óbreyttu við að bera þá vaxtahækkun fengju hana bætta í gegnum vaxtabætur þannig að nettóáhrifin yrðu viðráðanleg fyrir viðkomandi einstakling. Þess vegna verður að fara mjög varlega í að kippa fótunum undan bótahliðinni ef menn breyta ekki vaxtaprósentuhliðinni samhliða.

Ég vildi bara árétta þetta, herra forseti, þannig að það lægi alveg fyrir af því hv. þm. auglýsti sérstaklega eftir talsmönnum Framsóknarflokksins í þessari umræðu.

En mig langar að spyrja hv. þm. um eitt: Er það rétt skilið hjá mér að hann sé algerlega ósammála mér í því að rétt sé að hafa hátekjuskatt, að það sé rétt að leggja á menn skatta eftir efnum og ástæðum? Mér fannst hv. þm. tala gegn sérstökum tekjuskatti.