Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:41:20 (410)

2003-10-09 14:41:20# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., SKK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar stjórnarfrv. um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Ýmis orð hafa verið látin falla um þetta frv., m.a. frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, og um orð og efndir ríkisstjórnarflokkanna vegna kosningaloforða sem gefin voru í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa fyrst og fremst sakað ríkisstjórnarflokkana og okkur sjálfstæðismenn um að hafa svikið kosningaloforð okkar og fyrir að ætla ekki að standa við þau, hafa svikið fólkið í landinu með því að grípa til gylliboða í aðdraganda kosninga en ætla síðan að ganga á bak orða okkar. Við ungu þingmennirnir sem erum að taka sæti hér á Alþingi höfum verið spurðir hvernig okkur líði undir þessum meintu svikum. Ég get upplýst ágætan og réttkjörinn formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, um að okkur líður bara býsna vel, meira að segja alveg gríðarlega vel. Ástæðan er sú að engin kosningaloforð hafa verið svikin. Og það sem meira er, þau verða ekki svikin.

Fyrir síðustu alþingiskosningar lofuðum við sjálfstæðismenn því að við mundum lækka tekjuskatt um 4%, að við mundum afnema eignarskattinn og við mundum gera breytingar á virðisaukaskattinum og erfðafjárskattinum til lækkunar og leiðréttingar. Öll þessi stefnumál okkar sjálfstæðismanna sem við kynntum fyrir síðustu kosningar rötuðu inn í stjórnarsáttmálann. Stjórnarsáttmálinn var frágenginn og hann var undirritaður af stjórnarflokkunum og það er nú með svoleiðis sáttmála að við þá verður staðið.

Ég sem ungur þingmaður og talsmaður skattgreiðenda hér á þingi get því ekki annað en verið sáttur við það hvernig til hefur tekist. Ég fagna því að í stefnuræðu hv. forsrh. er tekið fram að heilum 20 milljörðum verði varið til skattalækkana á þessu kjörtímabili. Ég leyfi mér að fullyrða að engin ríkisstjórn fyrr eða síðar hefur lagt upp með önnur eins skattalækkunaráform og sú sem nú situr. Ég fagna því og það ættu skattgreiðendur að gera líka þrátt fyrir að fulltrúar stjórnarandstöðunnar æmti hér og skræmti yfir loforðum sem þeir telja að hafi verið svikin. En það hefur ekki verið gert.

Það eina sem má kannski nefna af því sem nefnt var í kosningabaráttunni var að talað var um að lögfesta hér í upphafi dagsetningar á lækkun tekjuskattsins. Það varð síðan niðurstaða stjórnarflokkanna að útfæra það nánar í tengslum við gerð kjarasamninga. Það er mjög ábyrg leið við stjórn efnahagsmála að setja fram skattalækkanirnar í tengslum við gerð kjarasamninga. Gagnrýni stjórnarandstöðuflokkanna snýst því í rauninni, ef maður skoðar þær umræður sem hér hafa farið fram, fyrst og fremst um útfærslu á þeim skattalækkunarloforðum sem ráðist var í en ekki um það hvort loforðin hafi verið efnd.

[14:45]

Virðulegi forseti. Ég ætla þá að víkja að einu atriði í því frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Það er 12. gr. frv. Þar kemur fram að lagt er til að sérstakur tekjuskattur, sem í daglegu tali er nefndur hátekjuskattur, verði framlengdur um tvö ár en jafnframt lækkaður í tveimur áföngum þannig að hann falli niður að lokum. Það er jafnframt miðað við að viðmiðunarfjárhæðir skattsins verði lækkaðar um 2,5% frá núgildandi lögum.

Eins og fram kom í stefnuræðu hæstv. forsrh. þá sagði hann að hann hafi litið svo á og það hafi hæstv. fjmrh. gert líka, að hátekjuskatturinn væri sjálffallinn niður um næstu áramót. Ráðherrarnir, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., voru nú reyndar ekki þeir einu sem álitu að hátekjuskatturinn eða hinn sérstaki tekjuskattur ætti að falla niður þá. Sá sem hér stendur deildi þeirri skoðun með ráðherrunum tveimur. Hins vegar sagði hæstv. forsrh. að það hefði orðið að samkomulagi milli stjórnarflokkanna að framlengja hátekjuskattinn en lækka hann með þeim hætti sem fram kemur í frv. þannig að hann yrði felldur niður árið 2006.

Ég get alveg sagt það í þessum sal að ég varð fyrir vonbrigðum með að hátekjuskatturinn skyldi ekki falla niður um næstu áramót. Ég varð fyrir vonbrigðum með það að það hafi þurft að ganga til sérstaks samkomulags um að framlengja hátekjuskattinn. Það voru mikil vonbrigði. Ég hefði talið að ef hátekjuskatturinn yrði framlengdur þá yrðu viðmiðunarmörkin hækkuð. En þetta var ekki gert. Hins vegar hlýt ég að fagna því að verið sé að festa í lög ákvæði sem gera það að verkum að lokum, eftir tiltölulega stuttan tíma, að þessi hátekjuskattur heyri sögunni til. (KHG: Þau voru í lögum.) Ég hlýt að fagna því að hann falli niður, hv. þm., árið 2006, vegna þess að ég tel að hátekjuskatturinn sé í fyrsta lagi mjög óréttlátur í eðli sínu. Ég tel að allir skattgreiðendur hér á landi eigi að greiða jafnháa prósentu til ríkisins.

Jafnframt tel ég að hátekjuskatturinn, sem kallaður hefur verið svo, standi ekki undir nafni vegna þess að hann leggst á margt ungt fólk sem hefur allt annað við sínar tekjur að gera en að greiða hærri skatta en hinn almenni launamaður. Ég fagna því a.m.k. að það verði leitt í lög að hátekjuskatturinn verði felldur niður og mun styðja það, enda er Sjálfstfl. eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur haft það á stefnuskrá sinni, bæði fyrir síðustu kosningar og áður, að afnema hátekjuskattinn. Hvað sem fagurgala annarra stjórnmálaflokka og fulltrúa þeirra hér í þingsalnum líður þá hafa aðrir stjórnmálaflokkar ekki fram að þessu sýnt neinn sérstakan áhuga á því í sínum stefnuskrám, hvorki fyrir síðustu kosningar né þar áður, að afnema þennan hátekjuskatt. Ég hlýt því að styðja þetta frv. sem leiðir til þess að hátekjuskatturinn verður á endanum afnuminn, enda sýnist mér að ekki veiti nú af að við talsmenn skattgreiðenda stöndum að baki stjórninni varðandi breytingu á hátekjuskattinum vegna þess að ég gat ekki skilið orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan öðruvísi en svo en hann væri bara hreinlega andsnúinn þeirri breytingu á hátekjuskattinum sem boðuð er í frv. Mér sýnist af þeim ummælum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lét falla hér áðan að við sem viljum hag skattgreiðenda sem mestan verðum einfaldlega að hafa okkur alla við til þess að tryggja afnám hátekjuskattsins.

Ekki er hægt að treysta á þingmenn Samfylkingarinnar í því máli enda gat hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson ekki svarað þeirri spurningu áðan hvort þingflokkur Samfylkingarinnar væri á móti hátekjuskattinum. Svo kom hér hv. þm. Helgi Hjörvar upp í pontu og var spurður þessarar sömu spurningar af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Hann treysti sér ekki til þess heldur heldur sagði að mikilvægt væri að skattar yrðu settir í samhengi. En hann tók ekkert afstöðu til spurningarinnar að öðru leyti.

Það kæmi nú á óvart ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson eða hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem stóðu að því að koma þessum hátekjuskatti á mundu styðja það núna að hann yrði afnuminn. (ÖS: Með hverjum?) Það kæmi mér á óvart. (ÖS: En með hverjum stóðum við að því?) Já, þið stóðuð að því með Sjálfstfl. En sem betur fer er sá ágæti flokkur að stefna að því að afnema þenna skatt núna og þó fyrr hefði verið.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið þessum athugasemdum mínum við 12. gr. frv. Ég ítreka það að ég hefði frekar viljað sjá hátekjuskattinn felldan úr gildi um næstu áramót. En það er ásættanlegt að mínu mati að hann verði felldur niður á kjörtímabilinu og það er algjörlega í samræmi við þær yfirlýsingar sem við sjálfstæðismenn gáfum fyrir þessar kosningar þar sem við töluðum um að hátekjuskatturinn yrði felldur niður á þessu kjörtímabili. Það er verið að gera og ekki er hægt að halda því fram, hvorki hér ná annars staðar, að í því felist einhver svik. Slíkar yfirlýsingar eru einfaldlega rangar.