Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 15:17:32 (413)

2003-10-09 15:17:32# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 111, sem er 111. mál, en um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum. Um er að ræða frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum nr. 103/2003, til þess að unnt sé að lögleiða að fullu í íslenskan rétt tilskipun 91/67/EBE í Evrópurétti um skilyrði á sviði dýraheilbrigðis sem áhrif hafa á markaðssetningu eldisdýra og afurða þeirra.

Forsaga þessa máls er nokkuð löng. Tilskipunin er hluti af EES-samningnum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/98 frá 17. júlí 1998, og hefur að geyma ákvæði um skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að milliríkjaviðskipti geti átt sér stað með eldisdýr og afurðir þeirra innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ísland hafði lengi undanþágu frá ákvæðum tilskipunarinnar. En sú undanþága féll endanlega úr gildi 30. júní 2002 og fékkst ekki framlengd þrátt fyrir að ítrekað hafi verið eftir því leitað af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ég trúði því að við fengjum hana upp tekna á ný og taldi það mikilvægt til að halda uppi friði um okkar dýrmætu laxveiðiár. Það gekk ekki og því höfum við orðið að leita annarra leiða til að verja þá auðlind og ég vona að þótt tilskipunin nái fram verði engu raskað eða meira áhætta tekin en þegar hefur verið gert með ströngum reglum sem hér gilda um fiskeldi í heild. Alþingi Íslendinga hefur með strangri löggjöf varðað það hvernig að þeim málum skuli staðið.

Eftirlitsstofnun EFTA fylgdist náið með framgangi mála hér á landi um innleiðingu tilskipunar 91/67 eftir að ljóst var að undanþágan fengist ekki framlengd. Meðal annars sendi Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum fjögur formleg kvörtunarbréf, dagsett í júní, nóvember og desember 2002, vegna þess að tilskipunin með áorðnum breytingum hafði ekki verið innleidd og gerði jafnframt grein fyrir að sá tími sem íslensk stjórnvöld höfðu til svara, skýringa eða úrbóta væri að renna út.

Frumvarp var lagt fyrir Alþingi í mars sl. á löggjafarþingi 2002--2003 sem hafði að geyma nauðsynlegar lagabreytingar til þess að unnt væri að lögleiða tilskipunina. En það var ekki afgreitt frá þinginu á þeim forsendum að tíminn til að vinna málið í landbn. væri of naumur og var það því ekki tekið til 2. umr. Samhljóða frv. sem sjútvrh. lagði fram vegna eldis sjávardýra var hins vegar samþykkt fyrir þinglok.

Í apríl 2003 þegar tilskipun 91/67 hafði enn ekki verið innleidd sendi Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit sem er síðasta formleg viðvörun í málsmeðferð Eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem Íslandi var gefinn tveggja mánaða lokafrestur til að innleiða tilskipun 91/67 í íslenskan rétt. Eftir þann frest yrði tekin ákvörðun um hvort höfðað yrði mál gegn íslenska ríkinu vegna samningsbrots fyrir EFTA-dómstólnum.

Í júní sl. þegar áðurnefndur tveggja mánaða frestur var liðinn lögðu stjórnvöld í Evrópusambandsríkjum, nánar tiltekið í Skotlandi og á Írlandi, bann við innflutningi eldisdýra og afurða þeirra héðan frá Íslandi með skírskotun til þess að Ísland og fiskeldisstöðvar hér á landi höfðu ekki sambærilegar viðbótartryggingar fyrir heilbrigðisástandi eldisdýra og gilda í Evrópulöndum. Eftirlitsstofnun EFTA hafði hafnað að gefa út slíkar tryggingar fyrir Ísland fyrr en löggjöf hér á landi hefði verið aðlöguð ákvæðum tilskipunar 91/67.

Fiskeldið er ný atvinnugrein hér á landi og er í miklum vexti. Möguleikar Íslendinga á þessu sviði eru miklir þegar til framtíðar er litið. Íslensk fyrirtæki hafa flutt út eldisfisk og hrogn til Skotlands, Írlands og annarra aðildarríkja Evrópusambandsins í ört vaxandi mæli. Viðskiptabann þetta tefldi í tvísýnu rekstrargrundvelli þessara fyrirtækja og olli þeim og íslensku fiskeldi miklum álitshnekki. Í húfi voru miklir fjárhagslegir hagsmunir og tugir starfa og blöstu uppsagnir við ef ekkert yrði að gert. Íslensk stjórnvöld áttu ekki annarra kosta völ en að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að leysa úr þeim vanda sem þarna var kominn upp og hnekkja þessum viðskiptahindrunum.

Af samskiptum íslenskra stjórnvalda við Eftirlitsstofnun EFTA á þeim tíma var ljóst að viðskiptahindrunum þessum yrði ekki hnekkt nema því aðeins að tilskipunin 91/67 yrði lögleidd hér á landi. Þar sem lagaheimild skorti til að lögleiða tilskipunina 91/67 í íslenskan rétt var komin hér upp sú staða að brýn nauðsyn var fyrir hendi til að setja bráðabirðgalög sem hefðu að geyma nauðsynlega lagaheimild til þess að unnt væri að lögleiða tilskipun 91/67. Hinn 1. júlí 2003 voru sett bráðabirgðalög, nr. 103/2003, sem hér eru til umfjöllunar.

Þegar eftir setningu bráðabirgðalaganna var tilskipun 91/67 lögleidd hér á landi með reglugerðum og leitað leiða til að afgreidd yrði beiðni Íslands um viðbótartryggingar sem fela í sér viðurkenningu á stöðu fisksjúkdóma hér á landi eða einhverju besta heilbrigðisástandi sem þekkist í veröldinni og verður nú okkar helsta vörn gegn innflutningi nýrra fiskstofna, enda er það ekki á dagskrá af hálfu fiskeldismanna. Þeir eiga þennan norska eldisstofn sem hér hefur verið notaður í fiskeldið og er seldur úti um heim, eins og ég gat um áðan. Stjórnvöld í Skotlandi og á Írlandi féllu í framhaldi af því frá áðurnefndum viðskiptahindrunum sem beint hafði verið að íslenskum fiskeldisfyrirtækjum.

Samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar ber að leggja bráðabirgðalög fyrir Alþingi þegar það er saman komið á ný. Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna eftir að þingið kom saman falla þau úr gildi. Ef frv. þetta verður að lögum felur það í sér nauðsynlega lagaheimild fyrir áframhaldandi gildi þeirra reglugerða sem settar voru sl. sumar til að innleiða tilskipun 91/67 hér á landi eða nýrra reglugerða um sama efni þegar gildistíma bráðabirgðalaganna er lokið.

Hæstv. forseti. Efnislegar breytingar sem frv. hefur að geyma varða innflutning á fiski, hrognum og sviljum, sem eru í meginatriðum eftirfarandi:

1. Gert er ráð fyrir að lögfest verði heimild til innflutnings lifandi laxfiska og annarra fiska er lifa í ósöltu vatni skv. lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, en samkvæmt ákvæðum laganna, áður en bráðabirgðalög nr. 103/2003 voru sett var slíkur innflutningur bannaður. Jafnframt er lagt til að lögfest verði heimild til notkunar erlendra flutningstækja hér á landi vegna fiskeldis, t.d. brunnbáta.

2. Gert er ráð fyrir að lögfest verði ákvæði í lög nr. 54/1990, um innflutning dýra, um að heimilt sé að flytja til landsins lifandi fisk, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð. Slíkt ákvæði felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 2. gr. laganna um að óheimilt sé að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra nema landbrh. veiti undanþágu frá því banni. Jafnframt er miðað við að lifandi fiskur, krabbadýr og lindýr sem flutt verða inn samkvæmt þessu undanþáguákvæði þurfi ekki að fara í einangrun í sóttvarnastöð eins og gildir um önnur dýr sem flutt eru inn samkvæmt undanþáguheimild landbrh., t.d. hundar og kettir. Í stað þess er í frv. kveðið á um margs konar sjúkdómavarnir sem ég mun nú gera grein fyrir.

Hæstv. forseti. Í frv. er gerð tillaga um að lögfest verði sérstök ákvæði í lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim til að takmarka útbreiðslu sjúkdóma þrátt fyrir innflutningsheimildir þær sem gert er ráð fyrir að lögfestar verði með framangreindum ákvæðum í lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði og lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra. Meðal annars er gert ráð fyrir að landbrh. sé í samráði við embætti yfirdýralæknis heimilt að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna eldisdýra eða afurða þeirra til lengri eða skemmri tíma til tiltekins lands eða landsvæðis telji hann að slíkur flutningur valdi eða sé líklegur til að valda útbreiðslu sjúkdóma. Þá er gert ráð fyrir að landbrh. setji með reglugerð ákvæði sem nauðsynleg eru með tilliti til sjúkdómahættu vegna innflutnings sem leyfður verður á grundvelli laganna. Geta slík reglugerðarákvæði m.a. falið í sér skyldu til að setja innflutt eldisdýr í einangrun ef hætta á sjúkdómum gefur tilefni til.

[15:30]

Á fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv.

Hæstv. forseti. Með frv. þessu er einungis verið að gera nauðsynlegar breytingar á lögum til þess að efna samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Ég endurtek: Til þess að efna samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Undan þeirri skyldu getur þingið ekki vikið sér. Það snýr ekki að því hvort við studdum EES-samninginn eða ekki á sínum tíma. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað leitað eftir áframhaldandi undanþágu frá þeim skuldbindingum um frjálsan innflutning á lifandi eldisfiski, eins og ég gat um áðan, sem tilskipun nr. 91/67 byggir á. Af viðræðum íslenskra stjórnvalda við Eftirlitsstofnun EFTA sl. eitt og hálft ár er orðið ljóst að Ísland á ekki kost á slíkri undanþágu og eru þessar lagabreytingar því óhjákvæmilegar.

Í umræðum um frv. þetta hefur því verið haldið fram að það feli í sér hættu á að sjúkdómar berist hingað til lands og einnig hættu á erfðablöndun sem kunni að valda tjóni á íslenska laxastofninum. Hér þykir rétt að benda á að með þeim reglugerðum sem settar voru sl. sumar hefur verið reynt að loka fyrir alla sjúkdómahættu sem stafað getur af innflutningi eldisdýra og afurða þeirra hingað til lands, en um er að ræða samræmdar reglur sem gilda fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið, m.a. hafa verið settar strangar reglur um þau skilyrði á sviði dýraheilbrigðis sem þarf að uppfylla til þess að innflutningur eldisdýra og afurða þeirra hingað til lands geti átt sér stað og einnig reglur um eftirlit með því að þau skilyrði séu uppfyllt. Ef einhver hætta er á að sjúkdómar berist með innflutningi eldisfisks eru víðtækar heimildir til að koma í veg fyrir slíkan innflutning og banna alfarið innflutning af tilteknum svæðum sem sjúkdómahætta stafar frá. Einnig eru ákvæði í lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem gilda um varnir gegn útbreiðslu fisksjúkdóma hér á landi. Reglugerðirnar og ákvæði laganna eru að mínu mati ásættanleg vörn gegn útbreiðslu fisksjúkdóma hér á landi og tel ég að nokkuð góð sátt ríki um innflutning eldisdýra, að þeim fylgi ekki sjúkdómahætta eftir setningu þessara reglugerða.

Enginn vafi er á að nauðsynlegt er að efla íslenska laxastofninn gegn erfðablöndun. Ég endurtek: Engin vafi er á að nauðsynlegt er að vernda íslenska laxastofninn gegn erfðablöndun og ekki er ástæða til að draga í efa að um það eru allir þingmenn sammála eða ég vona það. Það verður hins vegar að gera með þeim úrræðum sem tiltæk eru og án þess að brjóta samningsskuldbindingar Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Norskur laxastofn hefur verið hér á landi í um 20 ár og er nú þegar notaður í fiskeldi, en samkvæmt því er erfitt að færa rök fyrir að í fiskeldi hér á landi megi eingöngu nota innlendan stofn. Sá stofn sem hér er notaður nú í fiskeldi er af erlendum uppruna ræktaður og kynbættur hér og því er, og ég endurtek, erfitt að færa rök fyrir því að hér á landi megi eingöngu nota innlendan stofn. (Gripið fram í: Það er von á fleirum.) Nei, hv. þm., þetta snýr að því sem undirskrifað var í EES-samningunum 1994. (Gripið fram í: Þú ræður engu?) Ég ræð miklu og hef í sjálfu sér haft mikinn stuðning og þakka fyrir það, stuðning þingsins til þess að ráða miklu. (SJS: Ekki til þess að leka ...) og setja hér upp ströngustu reglur sem hægt er að hugsa sér. (SJS: Þú hefur ekki haft stuðning þingsins til að leka niður.) (Forseti hringir.) Enda hefur það aldrei hvarflað að Flóamanninum sem hér stendur.

Hér þykir einnig rétt, hæstv. forseti, að benda á að í gildandi lögum og stjórnvaldsreglum hér á landi eru nú þegar ákvæði sem koma í veg fyrir að erfðablöndun geti átt sér stað þrátt fyrir innflutningsheimildir, t.d. er í 23. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sú meginregla að við fiskrækt í ám er einungis heimilt að nota stofn úr viðkomandi veiðivatni. (Gripið fram í.) Svo að ég útskýri þetta betur fyrir hv. þingmönnum þá mega menn ekki taka núna stofn úr Elliðaánum og rækta hann í Laxá í Kjós eða úr Laxá í Kjós og rækta hann í Elliðaánum. Og enginn má hér fara með erlendan fisk í íslensk veiðivötn.

Hæstv. forseti. Í 23. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, er sú meginregla að við fiskirækt í ám er einungis heimilt að nota stofn úr viðkomandi veiðivatni, eins og ég sagði hér áðan. Einnig er hver konar flutningur á laxfiskum úr náttúrlegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangaveiði óheimill. Enn fremur kemur fram í 75. gr. sömu laga að kynbættan eldislax sé eingöngu heimilt að nýta til fiskeldis og að óheimilt sé að sleppa honum í fiskirækt eða hafbeit, en þessar reglur gilda að sjálfsögðu einnig um erlenda stofna ekki síður og enn frekar en innlenda stofna. Í 77. gr. laganna eru landbrh. veittar víðtækar heimildir til að takmarka eða banna fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar fiskeldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérstaklega viðkvæm fyrir slíkri starfsemi. Með auglýsingu nr. 226/2001, um friðunarsvæði, þar sem eldi frjórra laxa í sjókvíum er óheimilt hef ég sem landbrh. bannað sjókvíaeldi fyrir öllum ströndum landsins sem eru nálægt helstu laxveiðiám landsins. Það kann líka að vera að ég líti á það sjálfur og kannski einhverjir fleiri sem verk sem muni lifa inn í framtíðina og þykja kannski síðar mikilvæg og merkileg gjörð til verndar stofnum af Íslands hálfu. Þar er um að ræða mjög víðtækar takmarkanir þar sem bannið nær yfir flest strandsvæði landsins. Sjókvíaeldi er því aðeins heimilt á örfáum stöðum á landinu. Loks eru í reglugerð nr. 105/2000, um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna, ákvæði sem sett hafa verið í þeim tilgangi að veita vernd gegn því að erfðablöndun geti átt sér stað milli óskyldra stofna hér á landi og gilda þau einnig jafnt um innlenda og erlenda stofna. Samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum eru því miklar takmarkanir á hvað hægt er að gera við innfluttan eldisfisk þegar hann er kominn hingað til lands og eru leiðir til erfðablöndunar því verulega takmarkaðar.

Hagsmunum og tilvist íslenskra fiskeldisfyrirtækja var stefnt í mikla hættu sl. sumar þegar stjórnvöld í viðskiptalöndum okkar bönnuðu innflutning á eldisfiski og eldisafurðum héðan á þeim forsendum að Ísland hafði ekki uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Með setningu bráðabirgðalaga, nr. 103/2003, tókst ríkisstjórninni að bjarga þeim miklu hagsmunum sem í húfi voru og hnekkja þeim viðskiptahindrunum. Verði bráðabirgðalög nr. 103/2003 ekki staðfest á þann veg að tryggt verði áframhaldandi gildi þeirra reglugerða sem settar hafa verið og fela í sér lögleiðingu þeirra reglna sem eiga að gilda um markaðssetningu eldisfisks og eldisafurða á EES-svæðinu og sem Ísland er skuldbundið af er alveg ljóst að aftur verður lagður steinn í götu íslenskra fiskeldisfyrirtækja með sams konar viðskiptahindrunum og mættu þeim í sumar. Slíkar viðskiptahindranir munu á skömmum tíma eyðileggja tilvistargrundvöll þessara fyrirtækja og fiskeldis sem atvinnugreinar hér á landi. En ég vek athygli á að hér eru í húfi bæði hagsmunir ferskvatns- og sjávareldis. Það er ekki bara laxeldið heldur allt annað eldi, bæði í bleikju og sjávareldi, sem var í sumar og verður á ný í uppnámi.

Með vísan til þess sem hér hefur verið gerð grein fyrir tel ég ljóst að allir þingmenn geri sér grein fyrir hversu brýnt það er og í raun óhjákvæmilegt að bráðabirgðalög nr. 103/2003 verði staðfest af Alþingi innan tiltekins frests sem eru sex vikur frá setningu Alþingis.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.