Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:02:17 (415)

2003-10-09 16:02:17# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er skylda að merkja 10% af öllum fiskeldislaxi hér. Það er gert og því er fylgt eftir. Við stríddum líka við fiska í fyrra sem voru hér í íslenskum veiðiám. Þeir voru af erlendum stofni. Það er mjög mikilvægt að menn slátri laxeldisfiski áður en hann verður frjór og það bendir margt til þess að sá fiskur --- hans var leitað í ánum næst Neskaupstað og þar fannst hann ekki að því er vísindamennirnir segja --- en það bendir margt til þess að hann hafi farið til Færeyja eða á haf út og sé þess vegna dauður.

Hvað varð um heiðursmannasamkomulagið? Ég vil segja við hv. þm. að Alþingi Íslendinga samþykkti hér með löggjöf EES-samninginn sem gerður var. Í þeim samningi, í þeim gjörningi var þessi tilskipun þó að hann ætti ekki að snúast um landbúnaðarmál. Það er þjóðréttarleg tilskipun sem Íslandi ber að undirgangast og þess vegna stend ég hér. Bráðabirgðalögin eru ekki bara bráðabirgðalög landbrh., bráðabirgðalög eru sett af ríkisstjórn Íslands með staðfestingu forsetans.

En ég vil segja út af þeirri grein sem hv. þm. minnir hér á, reglugerð nr. 105/2000, að það stendur alveg skýrt í íslenskum lögum, lax- og silungsveiðilögum, að óheimilt sé að nota kynbættan eldislax til annars en fiskeldis og óheimilt sé að sleppa honum í fiskirækt og hafbeit. Þetta er alveg skýrt í íslenskum lögum. Það er ekki heimilt og verður ekki heimilt með þessum lögum eða því frv. sem hér er verið að leggja fyrir Alþingi.