Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:06:39 (417)

2003-10-09 16:06:39# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég býst nú við að allir skilji undanþágu\-ákvæði sem tímabundið ástand. Ég hygg að íslensk stjórnvöld hafi gert það og eigendur laxveiðiánna líka. Ég hef líka verið gagnrýndur fyrir að koma ekki með þetta mál fyrr til lögfestingar af því að ég hefði átt að gera mér grein fyrir því að þetta var undanþáguákvæði. En ég var svona barnalegur í minni trú að ég hélt að hægt væri að framlengja undanþáguákvæðið til þess að vinna okkur lengri tíma.

En það liggur nú fyrir að það gekk ekki upp og þess vegna höfum við reynt og leitumst við að leita allra leiða til að varða það öryggi sem hinir náttúrulegu stofnar á Íslandi eiga skilið. Ég tek undir það með hv. þm. að ég lít á laxveiðijarðirnar og laxveiðárnar sem dýrmæta auðlind sem okkur ber að varðveita. Þær bera mikla sérstöðu og skapa mikil þjóðarverðmæti. Þannig að ég trúi því að við vörðum þá leið að geta farið hér af þeirri varkárni sem lagt hefur verið upp með. Ég er ekki bara sá einn sem lagt hefur upp með að koma í gegnum þingið löggjöf um málið. Alþingi samþykkti hér ströngustu lög um fiskeldi sem sett hafa verið um fiskeldi í veröldinni. Þannig að því ber mér að fylgja eftir og mun gera.