Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:08:35 (418)

2003-10-09 16:08:35# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Strangasta löggjöf og ströngustu reglur í fiskeldismálum eru ekki nógu ströng fyrir íslenska villta laxastofna. Ef það er viðurkennt í Noregi að 1% eldislaxa sleppi úr kvíum --- sögur segja reyndar að það geti verið allt upp undir 5% þó að eldismennirnir séu bara tilbúnir til að viðurkenna 1% --- þá sleppur þetta 1% líka úr kvíunum hér. Það er alveg sama hvað við setjum strangar reglur. Eina ráðið til að koma í veg fyrir þessa ógn er að breyta atvinnuháttunum, breyta aðferðunum við atvinnuveginn.

Ef það borgar sig ekki peningalega þá borgar sig heldur ekki að vera með þær kvíar sem eru til staðar í því eldi, og ég tala nú ekki um það sem á síðan að bætast við í Seyðisfirði og stækkun í Berufirði og Reyðarfirði. Þannig að sannleikurinn er sá að kannski borgar það sig ekki fyrir okkur þegar öllu er á botninn hvolft að hafa eldið með þeim hætti sem verið er að reyna að koma á hér. Þetta er þauleldi á fiski. Þetta er eldi sem mögulega skaðar okkar dýrmætu auðlind sem eru villtu laxastofnarnir. Þannig að ég fullyrði að jafnvel þó að hæstv. landbrh. telji sig hafa sett ströngustu löggjöf í veröldinni þá nægir hún ekki vegna þess að eldi af þessu tagi er ekki öruggt. Það er ógnun.