Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:22:34 (420)

2003-10-09 16:22:34# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. lýsir í ágætri ræðu skilningsleysi sínu, hún nær ekki málinu. Það getur auðvitað hent hvern sem er. En ég veit að hv. þm. skilur þjóðréttarlega skuldbindingu, þannig að allt sem hv. þm. nefndi hér eru samtvinnaðar þrennur. Það eru útflutningshagsmunir, ekki bara í laxeldi heldur sjávareldi og bleikjueldi. Hvað gerist ef við förum fyrir dómstól úti í Evrópu? Þar hefði sjálfsagt sá dómur fallið að við yrðum að taka þetta upp í íslenska löggjöf. Niðurstaðan í sumar varð sú að íslenskar afurðir frá perlunni sjálfri, hinu hreina Íslandi, fengu þau skilaboð inn á alla hagsmunaaðila að hér væri sjúkdómaástand með þeim hætti að menn skyldu ekki versla við þetta land. Þetta er hluti af því að sá maður sem aldrei hefur farið til Brussel stendur nú hér í þessum sporum. Þetta mál er því margslungið en ég veit að hv. þm. skilur þjóðréttarlega skuldbindingu. Ég efast ekki um það. Ég veit líka að hv þm. hefur sýnt það í ræðustól að hún vill hafa sannleikann og réttlætið að leiðarljósi. En ég held að við eigum að geta varið okkar hagsmuni. Svo er það allt önnur skoðun hvort menn vilja fiskeldið upp á land á nýjan leik. Það er pólitísk skoðun. Það er allt önnur skoðun. En við stöndum frammi fyrir þessari gjörð. Við fengum ekki undanþáguástand og verðum þess vegna að lögleiða það sem menn sömdu um í EES-samningunum.