Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:30:51 (424)

2003-10-09 16:30:51# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Ég fæ ekki betur séð en að hér séu ljóslifandi komin bráðabirgðalögin sem ríkisstjórnin afgreiddi í hasti skömmu eftir kosningarnar í vor og voru undirrituð af hæstvirtum forseta lýðveldisins á Bessastöðum þann 1. júlí sl. Þetta voru vægast sagt mjög umdeild bráðabirgðalög og þótti mörgum ríkisstjórnin sýna valdníðslu með setningu þeirra.

Ég vil leyfa mér að vitna í 28. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, með leyfi forseta:

,,Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum.``

Þessi grein, þar sem lögð er áhersla á orðin brýn nauðsyn, hlýtur að vekja upp þá spurningu hvort brýn nauðsyn hafi verið á að kýla í gegn bráðabirgðalög sem heimila lítt heftan innflutning á lifandi fiskum, krabbadýrum, lindýrum, óháð þroskastigi, sérstaklega í ljósi þess að slíkur innflutningur hefur verið háður mjög ströngum reglum sem efalítið hafa gert það að verkum að Ísland hefur verið afar vel statt hvað varðar fisksjúkdóma í ám og vötnum. Við erum laus við mikil sjúkdómavandamál sem hrjáð hafa nágrannaþjóðir okkar. Hér er besta heilbrigðisástand í veröldinni, eins og hæstv. landbrh. sagði áðan.

Lax- og silungsveiðilögin frá 1970 eru stórmerk lög sem mörkuðu tímamót á sínum tíma. Í þeim er að finna ótalmörg ákvæði sem eru til mikillar fyrirmyndar og settu Ísland í fremstu röð þjóða heims þegar um er að ræða veiðstjórn og nýtingu veiðivatna og áa.

Í lögunum er m.a. að finna þessa málsgrein, með leyfi forseta:

,,Bannað er að flytja til landsins lifandi laxfisk eða annan fisk, er lifir í ósöltu vatni. Ráðherra er rétt að leyfa innflutning lifandi hrogna slíkra fiska, enda mæli fisksjúkdómanefnd með því og telji eigi hættu á, að sjúkdómar flytjist til landsins með slíkum hrognum, og þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá viðkomandi yfirvöldum.``

Þessa ágætu lagagrein vill ríkisstjórnin nú í raun fá dæmda dauða og ómerka.

En af hverju gerir ríkisstjórnin þetta? Hvað er það sem fær hæstv. landbrh. til að hegða sér með þeim hætti að halda mætti að hann vilji skemma dýrmætar auðlindir þjóðarinnar, auðlindir sem svo sannarlega tilheyra því sem við getum kallað erfðasilfur sveita landsins, já erfðasilfur þjóðarinnar, sem eru veiðivötn og laxveiðiár Íslands? Hvers vegna ber hæstv. landbrh. á borð fyrir hið háa Alþingi þetta frv. um breytingar á lögum, frv. sem gerir þjóðina ofurselda inn- og útflutningsduttlungum kaupahéðna sem hugsa bara um gróða dagsins í dag en gefa lítið fyrir varanleg verðmæti framtíðarinnar?

Mér skilst að þetta frv., sem á að lögleiða tilskipun Evrópusambandsins um frjálsan flutning á lifandi eldisdýrum og þar með talið laxfiskum til og frá Íslandi, hafi verið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi í fyrra. Þá hafnaði það til umfjöllunar í landbn. sem fékk það til afgreiðslu. Eðlilega hafnaði hin virðulega landbn. að afgreiða frv. þar sem hæstv. landbrh. lagði frv. fram skömmu fyrir þinglok og málið var umdeilt. Þá gerði ríkisstjórnin sér lítið fyrir og tróð því ofan í kok þjóðarinnar með setningu bráðabirgðalaga sem nú birtast þingheimi ljóslifandi sem frv. sem reyna á að fá Alþingi til að samþykkja. Þetta rekur nú á fjörur þingheims án þess að ríkisstjórnin hafi leitað álits hagsmunaaðila á málinu og þá á ég að sjálfsögðu ekki við einkavini stjórnarflokkanna í fiskeldisgeiranum því að þeir hafa eflaust haft nóg um þetta að segja á bak við tjöldin. Ríkisstjórnin hefur hins vegar skautað á sínum hála ís í þessu máli fram hjá áliti og skoðunum þeirra tugþúsunda Íslendinga sem með einum eða öðrum hætti eiga hagsmuna að gæta þegar lax- og silungsveiði er annars vegar.

Í sumar var talað fjálglega um að miklir hagsmunir væru í húfi, að kannski færi hálfur milljarður króna í súginn í útflutningsverðmæti á lúðuseiðum og norskættuðum laxahrognum ef tilskipunin tæki ekki gildi með lögum hér á landi og það undir eins. Þetta var haft eftir formanni Landssambands fiskeldisstöðva sem jafnframt er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Stofnfisks sem ræktar norskættaðan stofn eldislax og flytur út hrogn héðan frá Íslandi til margra landa. Fjölmiðlar klifuðu á því að tíu ára uppbyggingarstarf væri í uppnámi ef ekki yrðu samþykkt bráðabirgðalög.

En var nauðsynlegt að samþykkja þessi bráðabirgðalög? Nei, það var ekki nauðsynlegt. Gunnar á Hlíðarenda hefði aldrei reynt að leggja svona lög fyrir Alþingi. En nú sé ég að landbrh. er horfinn úr salnum þannig að hann gat ekki fengið að heyra þetta um sína miklu hetju.

En hvaða hagsmuni var verið að verja? Var verið að bjarga einhverjum einkavinum fyrir horn svo að þeir gætu selt laxahrogn og kannski lúðuseiði til útlanda? Fyrirtækið Stofnfiskur sem einkavinavætt var sérstaklega fyrir vini flokks hæstv. landbrh. fyrir tólf árum gumar af því að geta boðið til sölu einn besta stofn eldislax í heimi. Það er að eigin sögn stærsti seljandi laxahrogna til Evrópu og Chile. Þetta kemur allt fram í grein sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst og ég ætla ekki að fara að þylja upp hér og nú.

Mig langar þó að spyrja íslenska fiskeldismenn: Þjónar það hagsmunum ykkar að hér á landi sé statt fyrirtæki sem hefur yfir að ráða svo frábærum laxastofni að heimurinn hefur aldrei séð annað eins, að þetta fyrirtæki sé að selja þeim laxaframleiðendum sem þið eruð að keppa við þetta frábæra útsæði? Er það ekki andstætt hagsmunum ykkar að þessi mikli útflutningur sé stundaður, 40--50 milljónir hrogna á ári að sögn framkvæmdastjóra Stofnfisks? Úr þessu er framleiddur lax sem keppir þó við íslenskan eldislax, lax sem framleiddur er til að mynda í Chile fyrir lítinn kostnað, lax sem sennilega á stóran hlut í því að markaðsverð á eldislaxi hefur verið í lægð um missiraskeið og valdið því að laxeldi við Norður-Atlantshaf hangir nú á horriminni.

Ég velti því líka fyrir mér af hverju Fiskeldi Eyjafjarðar, sem gumar af því að vera stærsti framleiðandi lúðuseiða í heimi og nú er heimild til að einkavinavæða að fullu í fjárlögum, velur þá leið að flytja þessi seiði út. Af hverju er ekki reynt að ná þeim virðisauka út úr þessum seiðum sem hlýtur að felast í að ala lúðuna hér á landi í sláturstærð? Það er gert hér á landi í dag en einungis í smáum stíl.

Ég les í Morgunblaðinu viðtal við stjórnarformann Fiskeldis Eyjafjarðar þar sem hann upplýsir að til standi að flytja út 90% af lúðuseiðaframleiðslu þessa árs, mest til Noregs. Hann telur að markaðsaðstæður fyrir sláturlúðu séu góðar, einkum í Evrópu. Í Noregi og í Kanada stunda menn sjókvíaeldi á lúðu, sjókvíaeldi þar sem notuð eru íslensk lúðuseiði. Hvers vegna í ósköpunum eru engar tilraunir í gangi með sjókvíaeldi á lúðu hér við land en þess í stað farið út í atlögu gegn íslenskum laxastofnum með því að ala norskan lax í grennd við nokkrar af bestu laxveiðiám landsins? Hefur hæstv. landbrh. velt þessu fyrir sér?

Ég vil spyrja hæstv. landbrh. eftirfarandi spurninga og fá svör hér og nú. Fái ég þau ekki þá mun ég leggja þær fram sem fyrirspurnir með ósk um skrifleg svör:

Hafa eldisdýr verið flutt til landsins frá því að bráðabirgðalögin um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, voru undirrituð af forseta lýðveldisins þann 1. júlí í sumar? Sé svarið já, þá hve mikið af eldisdýrum og hvaða tegundir? Hve mikið af eldisdýrum og af hvaða tegundum hefur verið flutt út frá Íslandi frá því að bráðabirgðalögin tóku gildi 1. júlí á þessu ári fram til dagsins í dag?

Það væri fróðlegt að fá svör við þessum spurningum hjá hæstv. ráðherra. Ég hef nefnilega grun um að það hafi alls ekkert legið á því að setja bráðabirgðalögin í sumar.

Síðastliðið vor fékk Landssamband veiðifélaga Stefán Má Stefánsson prófessor til að vinna fyrir sig álitsgerð um verslun með lax og aðrar fisktegundir sem lifa í ósöltu vatni á Evrópska efnahagssvæðinu. Stefán komst að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld gætu hindrað þennan innflutning með því að setja í lög ákvæði um að ekki væri heimilt að flytja inn lifandi lax nema með leyfi ráðherra og að slík leyfi væri hægt að binda mjög ströngum skilyrðum, t.d. þeim að þannig væri búið um hnútana að hinir innfluttu fiskar slyppu ekki út í náttúruna.

Í 13. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er að finna fyrirvara sem þýðir að aðildarríki geti gripið til einhliða verndarráðstafana ef skilyrðum greinarinnar er fullnægt, þ.e. einkum til verndunar lífs og heilsu dýra, eins og þar segir. Dæmi finnast um að þjóðir hafi beitt fyrir sig þessum fyrirvara. Danir bönnuðu innflutning á framandi býflugnastofnum til eyjarinnar Lesö þar sem þeir töldu að slíkur innflutningur gæti skaðað býflugnastofninn sem fyrir var á eyjunni og þeir komust upp með það með tilvísun í þennan fyrirvara. Við gætum bannað innflutning á erlendum laxfiskum með tilvísun til þess að við teljum afar mikilvægt að vernda okkar hreinu stofna.

Við skulum ekki gleyma því að lax- og silungsveiði er gríðarlega dýrmæt auðlind hér á landi. Talið er að hún velti um 3 milljörðum árlega. Fjöldi bújarða, herra forseti, í hinum dreifðu byggðum landsins hefur miklar tekjur af laxveiðinni. Veiðin veitir fjölmörgum Íslendingum mikla ánægju og hvíld frá erli dagsins. Í krónum talið er talið að verðmæti laxveiðiánna sé metið á um 30 milljarða króna, herra forseti. En í raun er hér um ómetanlega auðlind að ræða sem ekki verður mæld í krónum og aurum.

Herra forseti. Ég vísa í þá ágætu álitsgerð sem ríkisstjórnin kaus að líta algjörlega fram hjá, og er það ekki í fyrsta sinn sem hún hendir vönduðum lögfræðiálitum beint í ruslafötuna þegar um er að ræða að keyra í gegn umdeildar lagasetningar til að þjónka einkavinum og stuðningsaðilum stjórnarflokkanna. Við munum öll hvað varð um lögfræðiálit það sem unnið var í aðdraganda þess að smábátarnir voru illu heilli færðir í kvótakerfið árið 2001. Ég hvet alla til að skoða greinargerð Stefáns Más Stefánssonar prófessors.

Nei, herra forseti. Ég ætla að lýsa því yfir strax að Frjálslyndi flokkurinn er alfarið andvígur frv. því sem hér er lagt fram og við í þingflokki hans munum berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum. Við viljum ekki setja í hættu þá dýrmætu auðlind sem lax- og silungsveiðin er. Við setjum hana ekki í hættu fyrir einhvern óljósan stundargróða einkavina ríkisstjórnarflokkanna.

Það er líka svo, herra forseti, að því miður er reynslan af eldi á norskum laxi í fjörðum landsins ekki til þess fallin að vekja traust. Öll munum við svo allt of vel þegar 3.000 laxar sluppu, --- að því er okkur er tjáð 3.000 laxar --- úr kví í Norðfirði nú í ágúst. Það var skelfilegt atvik og við erum öll sammála um það. Enginn veit hvaða afleiðingar það mun hafa.

Við vitum að hættulegir sjúkdómar hafa verið að grassera í löxum, eldislaxi í nágrannalöndunum. Sjúkdómurinn blóðþorri, skelfilegur sjúkdómur, hefur farið eins og drepsótt um Færeyjar. Það eru ekki nema um 400 km frá Færeyjum yfir til Austfjarða. Landbrh. vonar að strokulaxinn hafi synt til Færeyja. En hann skal líka vita að laxinn getur synt í báðar áttir. Hann getur líka synt frá Færeyjum til Íslands. Og hvað gerum við þá ef smitaður, sýktur lax syndir frá Færeyjum yfir til Íslands? Hvað gerum við ef villtir fiskar, eins og t.d. ufsi, bera þetta smit með sér? Við vitum ekkert um það hvort ufsi beri þetta smit með sér.

Hvað með öll fiskiskipin sem sigla á milli Færeyja og Íslands í stríðum straumum? Íslensk kolmunnaskip eru alltaf að landa kolmunna í Fuglafirði. Þar kom þessi sjúkdómur fyrst upp í Færeyjum. Talið er að þessi sjúkdómur hafi borist til Færeyja annaðhvort með villtum fiski eða með fiskiskipum sem voru að koma úr Norðursjó, frá Noregsströndum og Hjaltlandseyjum, til að landa fiski í Fuglafirði. Þar kom þessi sjúkdómur fyrst upp.

Ég tel að laxeldið fyrir austan sé ekkert annað en tifandi tímasprengja með tilliti til þessa sjúkdóms. Hann mun koma upp fyrr eða síðar fyrir austan. Það er bara spurning um tíma, herra forseti.

Ég ætla ekki að eyða tímanum í að tala um erfðamengunina. Hún er mjög alvarleg. Aðrir þingmenn hafa komið inn á það mál hér. En mér finnst svolítið athyglisvert að velta því fyrir mér hvort meira hafi sloppið af laxi en þessir meintu 3.000 laxar sem syntu brott nú í ágúst. Hvað vitum við um það hvort lax hafi sloppið úr kvíum í Mjóafirði eða Berufirði? Reynsla nágrannaþjóða sem hafa margfalda reynslu á við okkur Íslendinga í sjókvíaeldi á laxi er því miður ekki glæsileg. Og þetta eru þær þjóðir sem við leitum til með þekkingu á eldi og leitum til þegar við erum að kaupa búnað til eldisins.

Nýlega kom út skýrsla í Noregi á vegum náttúrunýtingarstofunnar þar í landi sem sinnir m.a. sama hlutverki í Noregi og Veiðimálastofnun hér á landi. Þessi skýrsla geymir upplýsingar um fjölda eldislaxa sem veiddust í norskum laxveiðiám á tímabilinu 1989 til ársins 2000. Um 28--40% af öllum löxum sem veiddust í sjó við Noregsstrendur á árabilinu 1993--1999 voru eldislaxar. Á árunum 1989--2000 voru 11--35% af kynþroska löxum í norskum laxveiðiám laxar sem sloppið höfðu úr norskum eldisstöðvum.

[16:45]

Í Færeyjum er talið að um 600 þús. eldislaxar hafi strokið úr eldiskvíum í fyrra, bara í fyrra. Áætlað er að um 2 millj. eldislaxa hafi sloppið í Norður-Atlantshaf á síðasta ári. Þetta er að gerast alls staðar, herra forseti, alls staðar þar sem laxeldi er stundað, líka við Ísland. Það þarf enginn að segja mér annað. Þetta er að gerast við austurströnd Bandaríkjanna, Kanada, Færeyjar, Noreg, Írland, Bretlandseyjar. Ég vil fá að heyra nánar rökstuðning hæstv. ráðherra með þeirri fullyrðingu sinni að hann hafi sett ströngustu reglur í heimi gagnvart fiskeldi. Ég er nefnilega alls ekki sannfærður um að það sé rétt. Reglugerðin sem nú er í gildi hljóðar upp á að það megi vera með eldislax í kvíum allt að 5 km frá ós næstu laxveiðiár. Hæstv. ráðherra leiðrétti mig vinsamlegast ef þetta er rangt hjá mér. Það er að vísu bannað að þessi lax sé frjór, hann skal vera geldur. En landbrh. veit jafn vel og ég að geldur bústofn getur alveg eins smitað út frá sér hættulegum sjúkdómum eins og bústofn sem ekki er búið að gelda. Það veit hann. Og 5 km eru ekki löng vegalengd. Þetta þýðir að hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson getur t.d. leyft laxeldi í Hvalfirði þó að ósar einnar af stærstu perlum Íslands í laxveiðinni, Laxá í Kjós, séu einmitt við Hvalfjörð. Það væri hæglega hægt að leyfa stórfellt laxeldi utarlega í Hvalfirði án þess að þessi reglugerð yrði brotin.

Sú blákalda staðreynd að norskur lax hefur sloppið í stórum stíl úr kvíaeldi hér á landi er gersamlega óafsakanleg. Að mínu mati er það líka í raun tilefni til vantrausts á hæstv. landbrh. að hann svari eins og hann gerði í fyrirspurnatíma í þessum sal fyrr í vikunni. Þá sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Við skulum vona að sem mest af honum hafi drepist eða farið til Færeyja eða eitthvað annað. Ég býst við að hluti af honum sé svona eins og Keiko, ósjálfbjarga í hafinu, en það er önnur saga.``

Síðan sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Færeyingar stunda það hins vegar að veiða lax í sjó og ég vona að þeir nái þessum laxi sem hér slapp þannig að það er mikilvægt.``

Herra forseti. Þessi ummæli eru svo makalaus að ég trúði vart mínum eigin eyrum þegar ég heyrði þau falla af vörum hæstv. landbrh. í þessum sal, ráðherra sem fer bæði með eldismál laxfiska hér á landi og nýtingu stofna laxfiska. Ráðherrann veit ekki að Færeyingar hafa ekki stundað veiðar á laxi í sjó síðan 1991. Hann reynir að ímynda sér að þeir muni veiða laxinn sem sleppur á hans eigin ábyrgð úr sjókvíum á Austfjörðum. Hér talar ráðherra sem reynir að láta líta út eins og hann sé sérfróður um laxagöngur í úthafinu. (Landbrh.: Þetta eru vísindaveiðar.) Þeir stunda ekki vísindaveiðar, hæstv. ráðherra, þeir gera það alls ekki. (Gripið fram í: Jæja?)

Sannleikurinn er hins vegar sá (Gripið fram í: Bíddu við.) að hæstv. landbrh. á við alvarlegan þekkingarskort að glíma. Hún er síðan verri, herra forseti, sú staðreynd að hér talar ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem ber ábyrgð á því að fjárframlög til rannsókna á villtum laxastofnum hér á landi eru skorin við nögl á þessu ári. Samkvæmt fjárlögunum sem nú liggja fyrir þinginu eru framlög ríkisins til Veiðimálastofnunar dregin saman um 17%, og var ekki af miklu að taka. Þau eru lækkuð úr 52 millj. kr. í 43,5 millj. Fjárveiting til að rannsaka göngu lax í sjó, herra forseti, er flautuð af, hreinlega flautuð af, með 10 millj. kr. niðurskurði. Einmitt núna þegar aldrei hefur verið jafnbrýnt að rannsaka vistfræði íslenskra laxastofna, að rannsaka göngu laxins, til að mynda í sjó, útbreiðslu hans umhverfis landið, líka rannsaka t.d. hvað verður um eldislax sem sleppur úr kvíum. Hvert syndir hann? Við vitum það ekki í dag. Sennilega munum við fá að vita það á næstu missirum. En það verður mjög fróðlegt að sjá hvað verður um þennan lax, hvert hann fer, því það er alveg rétt sem bent hefur verið á hér að þessi eldislax fer upp í árnar. Hann hrygnir saman við villta laxinn. Það eru mjög miklar líkur á því. Hann skemmir hrygningarsvæði villta laxins, rótar upp hrognum, eyðileggur fyrir villta laxinum, og er ekki á bætandi því að það er því miður staðreynd, herra forseti, að villtir laxastofnar við Norður-Atlantshaf standa mjög höllum fæti.

Mér finnst afskaplega sorglegt að vita til þess að við skulum hafa farið út í þetta laxeldi án þess að hafa stundað almennilegar rannsóknir og án þess að hafa undirbúið okkur á nokkurn hátt nógu vel. Núna erum við að súpa seyðið af því, því miður. Við hefðum haft og höfum sem betur fer enn þá einstakt tækifæri til að byggja upp ímynd Íslands sem kannski eina landsins við Norður-Atlantshaf sem hefur hreina laxastofna, er ekki með fiskeldi í sínum fjörðum, getur boðið upp á stangveiði sem við vitum að gefur mjög miklar tekjur, sem við höfum örugglega. Það er búið að nýta villta laxastofninn við Ísland með sjálfbærum hætti frá því að land byggðist. Þetta erum við að setja í hættu núna. Ég bara skil ekki að við séum að taka þennan séns. Fiskeldi á framtíð fyrir sér, þorskeldi, lúðueldi, steinbítseldi, jafnvel ýsueldi. Gott og vel. Ég er mikill stuðningsmaður fiskeldis. Ég er sjálfur háskólamenntaður fiskeldisfræðingur. Ég þykist vita hvað ég er að tala um og ég vara sterklega við þessu norska eldi, herra forseti.