Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:51:15 (425)

2003-10-09 16:51:15# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þm. sem hafa efast um að skýringar hæstv. ráðherra varðandi það hvernig þessi bráðabirgðalög komu til séu trúanlegar. Ég held að menn leiti of langt með því að leita skýringanna til Evrópu. Mér finnst trúverðugra að hann hafi átt í vandræðum með að koma þessu máli gegnum þetta háa þing og hafi þess vegna tekið það til bragðs að setja þessi bráðabirgðalög.

Það frv. sem er hér til umræðu setur stóra hagsmuni í hættu. Ég vona að hæstv. landbrh. fari að átta sig á mikilvægi þeirra tekna fyrir þjóðarbúið sem koma frá laxveiðiám. Í raun snýst þetta mál ekki einungis annars vegar um tekjur og gróða nokkurra fyrirtækja í fiskeldi og hins vegar tekjur og arð af laxveiðiám. Þetta er miklu stærra mál og snýst um náttúruvernd og virðingu fyrir öllu lífi. Ég vona að hæstv. landbrh. sjái að sér og dragi málið til baka.

Með því að leyfa þennan innflutning á útlendum laxastofnum stofnar hæstv. landbrh. innlendum laxastofnum í hættu og það verður stór hætta á erfðamengun. Hann ætti að hafa það sérstaklega í huga vegna þess að honum verður tíðrætt um hreinleika íslenskrar náttúru. Er einhver meining með þessu eða er þetta bara eins og annað blaður í framsóknarmönnum?

Við í Frjálslynda flokknum erum alfarið á móti þessum innflutningi enda er stór hætta á því að laxastofnar og ár spillist. Við ætlum að standa með ánum og náttúru Íslands og á móti þessari lagasetningu.

Hæstv. forseti. Við Íslendingar höfum slæma reynslu af innflutningi dýra sem geta lifað í íslenskri náttúru. Minkurinn var fluttur inn til landsins með slæmum afleiðingum fyrir villta náttúru. Ég spyr því: Gerir hæstv. landbrh. sér grein fyrir þeirri hættu sem hann stofnar náttúru landsins í?

Við sem höfum fylgst með laxeldi vitum að lax á eftir að sleppa og hann hefur sloppið, bæði í Vestmannaeyjum, Faxaflóa og nú síðast fyrir austan. Þessi laxeldisfyrirtæki hafa orðið fyrir öðrum áföllum og þau hafa jafnvel farið á svig við mengunarvarnareglugerðir, urðað dauðan lax á svig við allar reglur og fengið síðan leyfi eftir á fyrir urðunarstöðum. Þetta eru ekki einhverjir aðilar sem er hægt að treysta í blindni. Það verður að hafa eftirlit og eftirfylgni með því að menn fari eftir reglunum og ég tel að eins og mengunarvarnareglum er háttað á Íslandi verði að fara að láta bæði fyrirtæki og aðra sem fara á svig við reglur sæta meiri ábyrgð en nú er. Það væri þá bragur ef hæstv. landbrh. veitti því brautargengi að mengunarvarnareglur væru á þann hátt að menn væru látnir sæta ábyrgð en fengju ekki blessun eftir á fyrir að urða t.d. lax í óleyfi.

Við skulum nú skoða aðgerðir hæstv. landbrh. í öðru ljósi. Hann var að tala um innflutning á köttum og hundum. Margir landsmenn þekkja strangar kröfur um einangrun katta og hunda í Hrísey. Allir hundar og kettir eru settir í fjögurra vikna einangrun, meira að segja dýr frá þeim stöðum sem hafa nánast sömu dýrasjúkdóma og við Íslendingar búum við. Þessum reglum er fylgt strangt eftir af starfsmönnum yfirdýralæknis. Svo rammt kveður að þessu að starfsmenn hæstv. landbrh. aflífuðu kött franskra ferðalanga norður á Blönduósi sem slapp óséður inn í landið. Berum saman þá hagsmuni sem eru í veði með innflutningi katta og hunda og þá hagsmuni sem hæstv. landbrh. setur í hættu, tekjur sem nema 3 milljörðum á ári. Er eitthvert vit í þessum áherslum hæstv. landbrh.? Við í Frjálslynda flokknum segjum nei við því.