Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:56:15 (426)

2003-10-09 16:56:15# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. kom inn á það hvað við erum ströng í mörgu og þurfum að vera það ætla ég að minna á að sjúkdómar berast ekki bara með fiskeldi. Landbrn. fær heilmikla peninga og stendur mikinn vörð í Keflavík um að stangir þeirra manna sem koma með tæki sín og tól til að njóta laxveiðiánna séu sótthreinsaðar og staðið sé rétt að því. Ég hygg að sjúkdómarnir sem hafa verið að berast, jafnvel við Noreg, séu ekki allir frá fiskeldinu. Þeir eru líka frá því að einhverjir stangveiðimenn hafa farið óvarlega og komið með smit með sér.

Svona stendur nú málið, við stöndum í mikilli vörn og ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á það hvað Alþingi ver miklum peningum til að standa að þessu. Ég segi fyrir mig: Það stendur þreskivél skítug austur á Seyðisfirði sem ég hleypti ekki á kornakra Austfirðinga af því að hún kom skítug utan úr Evrópu. Ég sagði mönnum að flytja til baka flutningabíl sem átti að fara að flytja lömb með af því að hann kom drulluskítugur utan úr Evrópu eða brenna hann ella. (Gripið fram í.) Þannig verður það auðvitað líka í kringum þetta fiskeldi, það bendir ekki margt til að það sé mikið að koma hingað inn. En allar reglur verða hér að vera mjög strangar og eru það auðvitað.