Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:36:58 (442)

2003-10-09 18:36:58# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:36]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason sagði hér áðan að honum virtist sem reglugerðir varðandi laxeldi væru nokkuð öruggar að sjá. Það kann vel að vera að þessar reglugerðir virðist vera nokkuð skotheldar fyrir þá sem ekki kannski þekkja ítarlega til þess hvernig laxeldi fer fram. En svo er því miður ekki. Ég er hér með reglugerð um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna sem gefin var út af landbrn. 18. febrúar 2000, undirrituð af Guðna Ágústssyni, hæstv. landbrh. Í 4. gr. segir:

,,Við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skal miða við, að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði sl. 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skal fjarlægðin vera 15 km, nema notaðir séu stofnar af nærliggjandi vatnasvæði eða geldstofnar,`` --- ég ítreka, geldstofnar --- ,,má þá stytta fjarlægðina niður í 5 km.``

Þetta þýðir að það er hægt að vera með fiskeldi í allt að 5 km fjarlægð frá laxveiðiá ef um er að ræða geldstofn, t.d. á norskum stofni. Það var mjög ánægjulegt að heyra landbrh. lýsa því yfir hér áðan að geldfiskurinn færi ekki inn á þessi svæði sem hann hefur skilgreint ítrekað í viðtölum við fjölmiðla og líka hér úr ræðustól sem bannsvæði í laxeldi. Ég vona að hann standi við þetta og ég lýsi eftir reglugerð sem kveður skýrt á um að svo verði.

Önnur reglugerð, herra forseti, sem ég hef undir höndum er nr. 569/2003, líka útgefin af landbrn. nú í sumar, 23. júlí. Hún varðar öryggisráðstafanir vegna innflutnings á lifandi laxfiski og hrognum sem eiga uppruna sinn í Færeyjum og Noregi. Þetta er nokkuð merkileg reglugerð, reglugerð sem ég tel að sé í raun og veru ekki pappírsins virði sem hún er skrifuð á. Þar segir í fyrstu setningu, með leyfi forseta:

,,Af heilbrigðisástæðum vegna veirusjúkdómsins blóðþorra (ISA) er óheimilt að flytja inn lifandi fisk af laxfiskaætt (Salmonidae) sem á uppruna sinn í Færeyjum og Noregi.

Einnig er óheimilt að flytja inn lifandi hrogn fiska af laxfiskaætt (Salmonidae) sem eiga uppruna sinn í Færeyjum og Noregi nema hrognin hafi verið sótthreinsuð tvisvar, bæði nýfrjóvguð og á augnhrognastigi, og með fyrirvara um að viðkomandi sendingu fylgi vottorð í því formi sem sett er fram í viðauka I með ákvörðun þessari.``

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir að það er bannað flytja inn lax og hrogn frá Færeyjum og Noregi vegna þess að þar geisar hættulegur veirusjúkdómur sem kallaður er blóðþorri. Það er alveg rétt. Þar geisar hættulegur sjúkdómur sem heitir blóðþorri. Og hvaða sjúkdómur er þetta? Jú, þetta er vírussjúkdómur sem finnst í laxi og ál. Hvar hefur hann fundist? Það er rétt, eins og stendur í reglugerðinni, hann fannst í Noregi árið 1984 og í Færeyjum árið 2000. En hann hefur líka fundist á miklu fleiri stöðum. Hann hefur fundist í Skotlandi. Hann hefur fundist á Hjaltlandseyjum. Hann hefur fundist í Nova Scotia í Kanada. Hann hefur fundist í Chile. Hann hefur fundist í Maine í Bandaríkjunum. Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf þar sem Norður-Atlantslax finnst þar sem þessi veirusjúkdómur hefur ekki komið upp. Og hvers konar sjúkdómur er þetta? Jú, þetta er sjúkdómur sem talið er að smitist með snertingu frá sýktum fiski til heilbrigðs fisks. Hann er talinn berast með blóði, saur, fiskúrgangi og fleiru.

Vírusinn getur borist með búnaði og mönnum sem hafa verið í snertingu við sýktan fisk eða á sýktu svæði. Og takið nú eftir, lögin sem nú eru lögð fyrir þingið gera ráð fyrir því að það megi nota flutningatæki til að flytja lifandi eldisfisk erlendis frá til Íslands, m.a. flutningatæki sem hafa verið notuð í þessum nágrannalöndum okkar, t.d. Kanada og Bandaríkjunum. Ég get hvergi séð að bannað sé að nota flutningatæki frá Færeyjum og Noregi, það stendur hvergi í þessari reglugerð þótt ekki megi fara með fisk þaðan. Það má sigla með brunnbát frá Noregi til Íslands. Það er hægt. Það er ekkert sem bannar það.

Höldum aðeins áfram með þennan sjúkdóm. Ég hef nefnilega kynnst honum svolítið. Ég hef séð hvernig hann virkar vegna þess að ég var í Færeyjum þegar hann kom upp í fyrsta sinn árið 2000. Og það var ekkert grín. Þessi sjúkdómur er svo svæsinn að hann er ólæknandi, það finnst ekkert lyf gegn honum. Það verður að drepa allan fisk í eldisstöðinni þar sem hann kemur upp. Það verður að taka allan fiskinn upp, eyða honum í sýru, og ekki nóg með að það verði að eyða honum í sýru, heldur verður að brenna gumsið á eftir í sorpbrennslustöð. Í Leirvík í Færeyjum var fyrir ári síðan meðfram gamla þjóðveginum löng röð af tönkum sem voru fullir af eldislaxi sem eytt hafði verið í sýru og beið eftir því að fara í brennslu í sorpbrennslustöðinni í Leirvík. Svona svæsinn er þessi sjúkdómur. Og það er bannað að stunda fiskeldi á stöðum þar sem þessi sjúkdómur kemur upp í mörg missiri á eftir. Þessi sjúkdómur kom upp í Fuglafirði í Færeyjum, nyrst í Færeyjum, og hefur verið að breiðast í kringum allar Færeyjar. Það er nánast hægt að fylgja honum með hafstraumunum. Og núna er hann kominn til Suðureyjar, syðst í Færeyjum. Hvenær kemur hann til Íslands? Hann getur borist með villtum fiski. Hann getur borist með skipum. Hann getur borist með mönnum. Hver veit? (Gripið fram í: Bátum?) Bátum.

Hvernig getur sjúkdómurinn borist í lax á Íslandi? stendur hér á pappír sem ég hef undir höndum. Villtur lax getur smitast í hafi og borið vírusinn til landsins. Smitaður eldislax sem hefur sloppið úr kvíum getur smitað aðra laxa og jafnframt borið vírusinn til landsins ef hann kemur. Vírusinn getur borist með eldisafurðum sem fluttar eru til landsins. Til eru þekkt dæmi um að ISA, eins og þessi sjúkdómur er skammstafaður, sýktur lax, hafi verið fluttur á markað erlendis. Færeyingar hafa verið að selja sýktan fisk. Þeir hafa verið að flytja út sýktan fisk. Það komst upp um þá um daginn. Og þeir eru í mjög vondum málum einmitt út af því. (Gripið fram í: Færeyingar?) Færeyingar, já.

Þetta sverð höfum við hangandi yfir okkur fyrir austan. Því miður er það bara staðreynd. Og ef þetta kemur upp munum við ekki geta gert nokkurn skapaðan hlut. Við munum ekkert ráða við þetta.

Það hefur verið talað svolítið um búnaðinn í fiskeldisstöðvunum fyrir austan. Ég er búinn að leita, ég er búinn að fara hér yfir fullt af gögnum og leita í reglugerðum en ég sé enga reglugerð um það hvernig búnaðinum í sjókvíaeldisstöðvunum fyrir austan eigi að vera háttað. Af sjónvarpsmyndum get ég ekki séð annað en að þetta sé sami búnaðurinn og notaður er í Færeyjum og við Noreg. Og þar vitum við að lax sleppur út í stórum stíl.

Þegar laxinn slapp út í Norðfirði nú í ágúst --- náttúrlega alveg skelfilegur atburður, við erum öll sammála um það --- greip um sig, virðist vera af blaðaskrifum, ég er hér með grein úr Morgunblaðinu sem var skrifuð daginn eftir, 21. ágúst, nokkurs konar skelfing meðal embættismanna. Þeir bentu hver á annan. Veiðimálastjóri, Árni Ísaksson, benti á Fiskistofu og sagði að þetta væri á hennar ábyrgð. Fiskistofa benti til baka og sagði að þetta væri á ábyrgð veiðimálastjóra. Það voru ekki til neinar reglur um það hvernig ætti að bregðast við, það var ekkert apparat fyrir hendi til að bregðast við. Ekkert skipulag, þetta var kaos. Við sáum myndir þar sem menn voru að henda út ýsunetum, það var reynt að senda kafara upp í laxveiðiár til að leita að þessum fiski. Það var keypt upp öll veiði í Norðfjarðará. Þetta var tómur flumbrugangur. Það vissi enginn hvað hann átti að gera. Enda var ekki fyrir hendi nein áætlun um það hvernig ætti að bregðast við svona slysum. Þetta var nú allur viðbúnaðurinn, allt öryggið. Og þá spyr maður sig: Hvernig er þá með allt hitt sem við vitum ekki um?

Maður hlýtur að spyrja sig þeirrar spurningar: Hvernig hefur verið staðið að þessu? Hver er undirbúningurinn? Ég held að hann sé ekki nógu góður, því miður, og eins og ég sagði fyrr í kvöld erum við hreinlega að taka allt of mikla áhættu.

Mig langar aðeins að lokum til að vitna í landbrh., í orð sem hann lét falla á ráðstefnu um framtíð villtra laxastofna og fiskeldis á Íslandi 28. nóvember árið 2000. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hæstv. ráðherra talaði þá frá hjartanu, hann meinti það sem hann sagði. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég hef sagt það áður að á sumum stöðum kemur aldrei til greina að heimila eldi í sjó. Þar sem fjörðurinn kyssir laxveiðiána verður aldrei eldi. Þar sem við lágnættið má sjá gljáandi lax líða með ströndum og reka trjónuna í ferskvatnið verður aldrei eldi. Til þess er sú sjón of tengd íslenskum glæsileik að henni sé vogandi.``

Hæstv. ráðherra, Guðni Ágústsson, ég er alveg viss um að þetta kom frá hjarta þínu. Guðni Ágústsson: Orð skulu standa.

(Forseti (JBjart): Forseti beinir því til hv. þingmanns að beina orðum sínum til forseta og ávarpa ráðherrann með hæstvirtur.)