Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:23:14 (452)

2003-10-13 15:23:14# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Stjórnvöld hafa afhent útgerðarmönnum einum jafngildi eignarréttar á sameign þjóðarinnar. Síðan hefur fjöreggjum sjávarbyggða, sérstaklega þeirra smærri, verið kastað á milli byggðarlaga með afdrifaríkari hætti en mögulegt var áður. Hlutafjárvæðing útgerðarfyrirtækja hefur margfaldað möguleika á samþjöppun veiðiréttar og fyrirvaralausum flutningi veiðiheimilda frá einu byggðarlagi til annars.

Atburðir af þessu tagi hafa gerst og þeir vofa yfir á ýmsum smærri stöðum um þessar mundir. Eftir sitja íbúar í verðlausum húsum sínum og atvinnulausir. Grundvöllur til að stofna ný fyrirtæki í sjávarútvegi er nánast enginn og möguleikar til að koma af stað annarri atvinnustarfsemi í þessum sérhæfðu fiskiþorpum hafa reynst afar takmarkaðir líka.

Þessar staðreyndir valda því að fólkið missir trúna á framtíð smærri sjávarbyggða og flytur í burtu. Þetta er eyðibyggðastefna og hún virkar. Það þýðir ekki lengur að halda því fram að menn viti ekki hvernig hún virkar. Það er kominn tími til að þeir sem styðja þessa stefnu viðurkenni að eignarhald veiðiréttarins hefur þessi áhrif. Það sviptir byggðirnar grundvellinum sem skóp þær, hagræðinu af nálægð fiskimiðanna.

Hæstv. forseti. Það er búið að ákveða að svíkja kosningaloforðið um línuívilnun sem átti að koma smáum byggðum til góða strax í haust. Áhrifamiklum útgerðarmönnum líkar nefnilega ekki hugmyndin. Þeir hafa reiknað út hvernig veiðiheimildirnar muni gufa upp og störf tapast. Þess vegna, hæstv. forseti, er ástæða til að vekja athygli á því að jafnvel þó að þeir hefðu reiknað rétt er sú tilfærsla smámunir, eins og samanburður á hornsíli og hval, geri menn sér í hugarlund hvaða kvótatilfærslur Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson gætu dundað sér við á einu síðkveldi í Austurstrætinu. Sú óvissa sem yfir vofir vegna eignarhaldsins á fiskinum í sjónum ætlar þó seint að leiða menn í skilning um eðli vandans.