Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:28:10 (454)

2003-10-13 15:28:10# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Vandi sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið er mikill. Í ljósi þess er rétt að skoða forsöguna. Það er einmitt fyrir styrk, afl og vinnu fólks í þessum sjávarbyggðum sem við erum eitt ríkasta samfélag í heimi, ein ríkasta þjóð heimsins. Þess vegna er mikilvægt að átta sig á því hvort kerfisbundinni eða kerfislægri mismunun sé beitt gagnvart þessum byggðum því að það verður að styrkja og jafna samkeppnisstöðu þeirra. Er einhver kerfislæg mismunun í gangi? Já, hún er í gangi.

Nýjasta dæmið er úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem var breytt mjög skyndilega. Það bitnar einmitt hart á ákveðinni stærð sveitarfélaga en framlög til þeirra dragast saman miðað við það sem áður var, framlög til sveitarfélaga af þeirri stærð sem algengust er meðfram ströndum landsins. Er það sanngjarnt eða rétt?

Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að sjóflutningar á ferskum fiski á markaði erlendis væri framtíðin og svar við Kínafiskinum svokallaða, að flytja fisk ferskan á markað. Þá gefur augaleið að dagróðrabátar og nálægð við fiskimiðin mun skipta gríðarlega miklu máli. Mun hæstv. byggðamálaráðherra beita sér fyrir breytingum sem styrkja dagróðraflotann?

Þá vil ég og nefna að varðandi flutningskostnaðinn er gríðarleg mismunun í gangi. Fiskframleiðendur við hafnir vítt og breitt um landið verða nú að axla allan kostnað af flutningi á vörum sínum til útflutningshafna. Útflutningshöfnum hefur verið fækkað. Vissuð þið t.d. að Ísafjörður er ekki lengur útflutningshöfn heldur er það Eskifjörður sem á að sinna útflutningnum? Þarna er kerfislæg mismunun í gangi sem ég vil spyrja hæstv. byggðamálaráðherra hvort hún muni beita sér fyrir að leiðrétta.