Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:30:37 (455)

2003-10-13 15:30:37# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur verið komið inn á ýmsa þætti sem skipta svo sannarlega hinar dreifðu byggðir miklu máli. Það er alveg rétt að bættar samgöngur og mikið átak í þeim efnum hefur haft mikið að segja. Það er líka alveg rétt að bætt menntun ungs fólks úti á landsbyggðinni hefur haft mikið að segja. Það er alveg rétt að atriði eins og símenntun, átök í menningartengdri ferðaþjónustu og annað þess háttar eru einnig góðra gjalda verð.

En þetta er því miður ekki nóg. Hið stóra vandamál, frú forseti, í mínum huga er það að þessar litlu sjávarbyggðir allt í kringum landið fá ekki að njóta þeirra náttúruauðlinda sem þær búa að, fá ekki lengur það frelsi sem þær þurfa til að njóta þeirra náttúruauðlinda sem byggðust upp á sínum tíma. Þetta er hinn stóri vandi. Hinn stóri vandi er þessi geysilega harða og grímulausa fiskveiðistjórn sem öðrum þræði er að verulegum hluta hagsmunagæsla. Þetta er að brjóta niður þessar litlu byggðir. Þetta hef ég sjálfur séð á ferðum mínum um landið, bara núna á undanförnum mánuðum. Að koma á staði eins og Raufarhöfn og Bíldudal er ekki nein skemmtileg upplifun, því miður. Þessir staðir hafa ekki farið halloka vegna þess að fólk nenni ekki að vinna þar. Þeir hafa farið halloka fyrst og fremst vegna þess að þeir hafa glatað af ýmsum orsökum nýtingarréttinum á sinni fremstu auðlind og hafa ekki náð honum til sín aftur, lifa nú og hanga á horriminni við mjög ótryggt atvinnuástand. Fólk hugsar sér að sjálfsögðu til hreyfings við svona aðstæður, byggðirnar brotna smám saman niður og þær gera það innan frá.

Það er mikil þversögn í mínum huga að þetta skuli gerast á sama tíma og við búum við svona mikla velmegun, svo góðar samgöngur og fjarskiptatækni, að við skulum loksins vera búin að byggja upp þessa staði með öllum þeim innri strúktúr sem til þarf, skólum og öðru þess háttar, og að þá skuli einmitt leynt og ljóst vera unnið að því að leggja staðina niður. Lausnin felst í því að færa þessum byggðum aftur nýtingarréttinn á þessari mikilvægu auðlind og það er ekki verið að biðja um mikið, frú forseti.