Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:37:34 (458)

2003-10-13 15:37:34# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er því miður til staðar í ýmsum byggðarlögum mikill vandi, ekki síst í sjávarútvegsbyggðarlögunum, og þess vegna er fullt tilefni til þessarar umræðu. Það er hins vegar alveg rétt sem fram kom í máli hv. málshefjanda að ástæðurnar fyrir þessum vanda eru ekki alveg einhlítar og þess vegna held ég að skynsamlegt hafi verið hjá hv. þingmanni að beina sjónum sínum víðar til þess að reyna að átta sig á því hvað bæri að gera í þessu sambandi.

Menn hafa auðvitað verið að reyna að bregðast við þeim vanda sem upp hefur komið í sjávarbyggðunum með ýmsum hætti, t.d. með því að reyna að auka sóknarrétt minni bátanna sem hafa verið undirstaða atvinnulífsins í ýmsum þessara byggðarlaga. Það var gert t.d. með því að gefa þessum bátum á sínum tíma ákveðið forskot, þeir höfðu frelsi til sóknar í tilteknar aflategundir, og síðan með því að auka sérstaklega veiðiréttinn með útgáfu kvóta þeim til handa. Þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur núna á prjónunum og hæstv. forsrh. greindi frá að ætlunin væri að lögfesta nú í vetur, um línuívilnun, eru auðvitað viðleitni í þessa átt, að festa sóknarréttinn betur í þessum byggðarlögum til þess að tryggja það að undirstaðan fyrir atvinnuuppbyggingu í sjávarbyggðunum væri öflugri en hún er í dag. Þetta er auðvitað allt saman viðleitni í þessa átt.

En það er alveg rétt sem hv. þm. hafa vakið athygli á, við þurfum auðvitað að reyna að leggja áherslu á annars konar atvinnulega uppbyggingu jafnframt og ríkisstjórnin verður að taka fast á þeim málum. Það blasir t.d. alveg við að ef stærsti vinnuveitandi landsins, ríkisvaldið, leggur ekki áherslu á uppbyggingu sína úti á landi eins og á höfuðborgarsvæðinu er þetta stríð tapað. Stærsti vinnuveitandi landsins verður einfaldlega að leggjast á árarnar í þessum efnum. Ég vil í því sambandi sérstaklega segja það að auðvitað skapast núna ný tækifæri með þeirri uppsveiflu sem fram undan er til þess að fara í meira átak en nokkru sinni fyrr, í það að flytja hin opinberu störf út á land, koma þeim fyrir í þeim byggðarlögum þar sem fólk kallar á vinnu. Eins og við sjáum á tölum vantar okkur inn í aldurshópana stóra árganga. Ein forsendan fyrir því að unga fólkið, fólkið sem hefur leitað sér menntunar, komist til starfa aftur í heimabyggðum sínum er að ríkisvaldið leggist á árarnar einmitt á þessum vettvangi.