Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:15:04 (466)

2003-10-13 16:15:04# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju með þá umræðu sem hér fer fram og ekki í fyrsta sinn um sjávarútvegsmál sem til þessa hefur verið óvenju málefnaleg miðað við margar ræður, rit og skrif sem hafa átt sér stað um sjávarútvegsmál sem því miður hafa einkennst allt of mikið af upphrópunum þar sem hlaupið er út og suður á stundum afskaplega ómálefnalegan hátt. Þess vegna ber að fagna því að hér skuli eiga sér stað jafnmálefnaleg umræða og raun ber vitni.

Því miður eru málefni sjávarútvegsins allt of oft einfölduð um of og mjög oft er umræðan byggð á nokkuð þröngu sjónarhorni þar sem er verið að ræða út frá hagsmunum einstakra hópa, einstakra útgerðarflokka og fiskvinnslu og út frá sjómönnum, útgerðarmönnum, jafnvel heilu byggðarlögunum eða landsvæðunum og þar fram eftir götunum. Stundum gleymist í slíkri umræðu eins og komið hefur fram hér í dag að í sjávarútvegi sem og öðrum greinum hafa orðið alveg gífurlega miklar tæknilegar framfarir þar sem tækni, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, hefur leyst mannshöndina af hólmi. Þess vegna m.a. hefur fækkað svo mikið í fiskvinnslunni og jafnvel í áhöfnum skipa eins og raun ber vitni. Auðvitað snertir það sjávarpláss. Auðvitað snertir það alla þá sem eru í slíkri útgerð eða eru í þeirri atvinnugrein, þó ekki sé nema bara hin tæknilega þróun sem átt hefur sér stað.

Í umræðum um sjávarútvegsmál fer tíminn yfirleitt langsamlega mestur í deilur um með hvaða hætti á að veiða. Á að veiða með frystitogurum? Á að veiða með handfærabátum, dragnótabátum, ísfiskbátum eða netabátum og hvað þeir nú heita allir? Og sýnist þar sitt hverjum. Gjarnan byggist afstaðan á því hvaðan menn koma hvaða hagsmunir ráða.

Allt of mikill tími fer í rauninni í slíka umræðu, ég segi of mikill tími vegna þess að sjávarútvegsstefna hefst í raun og veru ekki í sjónum. Hún hefst heldur ekki á mörkuðum hér. Það var rétt sem hv. þm. Jóhann Árælsson sagði þegar hann færði rök fyrir máli sínu um aðskilnað vinnslu og veiða að það væri markaðurinn sem skipti mestu máli, en það er ekki innanlandsmarkaðurinn sem skiptir þar meginmáli. Það er hinn erlendi markaður sem skiptir höfuðmáli og má segja að þar hefjist í rauninni sjávarútvegurinn okkar, á mörkuðunum. Því allt snýst þetta um að selja afurðir, ekki étum við allan þann fisk sem við veiðum. Sjávarútvegurinn er mikilvægasta gjaldeyrisöflun okkar. Þess vegna skiptir meginmáli að selja fyrir sem hæst verð á erlendum mörkuðum.

Því miður er umræðan, ekki síst hér á hinu háa Alþingi, allt of lítið um erlenda markaði, hvar og hvernig við getum fengið hæst verð fyrir afurðir okkar. Það sem síðan fylgir er í rauninni bara tæknileg útfærsla, þ.e. hvernig einfaldast er að afla hráefnis og vinna það eftir þörfum upp í þá samninga sem við hugsanlega getum náð, hina bestu samninga.

Og hvað sem sagt verður um sjávarútveg, hvaða skoðanir sem menn hafa á kvótakerfi eða öðru sem tengist sjávarútvegi, þá liggur það þó fyrir með tölulegum staðreyndum að sjávarútvegur skilar þjóðarbúinu í dag meiri verðmætum en nokkru sinni fyrr. Hvaða skoðun sem menn hafa á sjávarútvegi þá eru það tölulegar staðreyndir. Hann er lykillinn að þeirri velferð sem hér hefur verið á síðustu árum og áratugum og er undirstaða þeirrar velferðar. Okkur hefur tekist að skapa aukin verðmæti í sjávarútvegi, m.a. vegna aukinna tækniframfara og við höfum verið nokkuð rösk við útrásina, leitað að mörkuðum, og menn hafa reynt eins og það heitir að hagræða hvaða skoðanir sem menn hafa á því.

Það er auðvitað mikil viðurkenning á sjávarútveginum þrátt fyrir að við séum að veiða í bolfiski mun minna en við gerðum þegar best var, þá eru verðmætin eigi að síður mun meiri og því ber að fagna. Við þurfum auðvitað að hafa það í huga þegar við fjöllum um sjávarútveg.

Aðskilnaður veiða og vinnslu er auðvitað aðeins einn þáttur af mjög mörgum. Hér hafa verið færð alveg fullgild rök fyrir því af hverju á að skilja að veiðar og vinnslu. Sjálfur hef ég ekki neina afdráttarlausa skoðun á því vegna þess að það eru rök bæði með, eins og hér hefur verið ágætlega lýst, en menn hafa líka bent á rök á móti þessu, m.a. þar sem fiskvinnslufyrirtæki og útgerðarfyrirtæki sem oft fer saman, hafa náð langtímasamningum, góðum samningum við einhverjar keðjur erlendis, t.d. Marks & Spencer þar sem fæst ágætt verð fyrir afurð, gerðar ákveðnar kröfur og samningar til nokkuð langs tíma.

Þá segja þeir sem hafa náð slíkum samningum að þeir samningar verði einfaldlega í uppnámi. Vissulega eru þetta rök sem alls ekki er hægt að líta fram hjá. Kannski er rétta leiðin sú sem mig minnir að frændur vorir Færeyingar hafa farið þar sem þeir held ég skikki 30% af aflanum til að fara á markað, hinu megi útgerðir síðan ráðstafa með sínum hætti. Vera kann að þetta sé hin skynsamlega lausn, ég vil ekki leggja mat á það, en væntanlega mun hv. sjútvn. fara yfir það verði frv. vísað til nefndarinnar.

Frú forseti. Ég ítreka það að með hugmyndinni að setja allt á markað þá má tengja það þeirri utandagskrárumræðu sem var hér um stöðu sjávarbyggða. Ef allur afli á að fara á markað, hvað segir það þá um einstakar sjávarbyggðir? Hér hefur oft verið nefnt og í umræðu í dag var nefnt að byggðatengja þurfi sjávarafla. En hvað þýðir það ef allur afli fer á markað? Er það þá ekki hið frjálsa framtak og er það þá ekki styrkur fjármagnsins sem mun leiða aflann þangað sem fjármagnið vill að aflinn fari?

Meginatriðið, frú forseti, í þessu þar sem við hljótum alltaf og eigum alltaf að horfa á er hvort þetta er þjóðhagslega hagkvæmt, hversu hagkvæmt er það fyrir þjóðarbúið í heild sinni en ekki aðeins einn afmarkaðan þátt þess.