Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:23:04 (467)

2003-10-13 16:23:04# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hafði áhyggjur af því að ef allur fiskur færi á markað gæti verið erfitt fyrir fyrirtæki að standa við samninga langt fram í tímann. Auðvitað getur verið hugsanlegt að það gerist. Ég held hins vegar að öll fyrirtæki hljóti að þurfa að aðlaga sig því umhverfi sem er á hverjum tíma. Ég get ekki séð annað en að annars staðar í heiminum uni menn vel við það fyrirkomulag. Þetta er talið nokkuð sérstakt eins og hér er að öll fiskvinnsla og útgerð skuli nánast vera samtvinnuð í stærstu fyrirtækjunum.

Vegna þess að mér fannst hann tala frekar jákvætt um þessa hugmynd þó hann væri ekki tilbúinn að taka afstöðu til hennar núna og vildi fjalla um hana í sjávarútvegsnefndinni sem er bara gott, þá langar mig að spyrja hv. þm. hvort hann sé þá ekki fullur af þeim ótta sem kom fram hjá forstjóra eins af stóru fyrirtækjunum fyrir kosningarnar í vor, þ.e. ÚA, þar sem hann lýsti því að ef veiðar og vinnsla yrðu aðskilin mundu þessi fyrirtæki öll vera í uppnámi og fjöldi af fyrirtækjum mundi leggja upp laupana og atvinnuleysi hefja innreið sína í sjávarplássum á Íslandi. Þetta var nú engin smáyfirlýsing sem kom fram í kringum kosningarnar.

Ég spyr hv. þm.: Er hann óhræddur við að skoða þetta þó svo hann hafi fengið slíka aðvörun?