Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:25:00 (468)

2003-10-13 16:25:00# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:25]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég sagði áðan er að sjálfsögðu eins og með allt að þingmenn hljóta að vera tilbúnir til að skoða, fara yfir kosti og galla og móta sér síðan afstöðu samkvæmt því. Þegar við tölum um kosti og galla hljótum við að horfa á þjóðhagslega hagsmuni.

Yfirlýsing forstjóra Útgerðarfélags Akureyringa er auðvitað fyrirbrigði sem þarf að horfa á og hlusta á. Það eru fullgild rök að baki því. Og það að allur fiskur fari á markað --- það segir sig sjálft, ég tala ekki um ef við ætlum að nota það sem rök til að skilja að vinnslu og veiðar og þar með sé hægt að hleypa útlendingum inn í sjávarútveginn --- hvað þýðir það fyrir sjávarbyggðir landsins eins og hér hefur verið rætt um í dag? (ÖS: Ég mundi eftir stefnu Halldórs Ásgrímssonar.) Munu þá ekki öflugir, sterkir, erlendir aðilar koma, eins og reyndar eru komnir inn í sjávarútveginn í dag og menn væntanlega gera sér grein fyrir, og á markaði fari þá væntanlega sá fiskur sem upp er boðinn þar sem uppboðið er hæst? Það þarf ekki endilega að vera í sjávarbyggðum. Það gæti verið um það að ræða að senda þann fisk lítt unninn úr landi vegna þess að erlendir aðilar bjóði hæst. Það kynni að vera niðurstaðan. Þetta eru fullgild rök. Þetta er hlutur sem verður að skoða.

Þegar fyrirtæki hafa náð góðum samningum sem byggja á fimm eða tíu ára veiðum og öruggum aðgangi að veiðiheimildum þá eru það líka fullgild rök sem verður að horfa á. En aðalatriðið er þó að í vinnu hv. nefndar verði farið yfir þessi mál út frá öllum hliðum og síðan móti menn sér afstöðu.